Látinn laus gegn tryggingu

Lögreglumaðurinn Michael Slager er 33 ára.
Lögreglumaðurinn Michael Slager er 33 ára. AFP

Lögreglumaður sem skaut til bana svartan mann í Suður-Karólínu í apríl í fyrra hefur verið látinn laus gegn tryggingu. Tryggingarfjárhæðin nemur hálfri milljón Bandaríkjadala, sem svarar til 65 milljarða króna.

Michael Slager, sem var rekinn úr lögreglunni í North Charleston eftir að hafa skotið Walter Scott, 50 ára, til bana, hefur setið í fangelsi frá því í apríl í fyrra.

Mótmæli brutust út í Charleston og víðar í kjölfar dauða Scotts en fjölmargar fréttir hafa borist af lögregluofbeldi gagnvart svörtum í Bandaríkjunum undanfarin misseri. 

Slager var látinn laus klukkan 7 í gærkvöldi en hann þarf að greiða 50 þúsund Bandaríkjadali alls af tryggingarfjárhæðinni. 

Scott var skotinn fimm sinnum í bakið þegar hann reyndi að hlaupa á brott frá Slager 4. apríl. Slager hafði stöðvað hann við umferðareftirlit vegna þess að hemlaljós bifreiðarinnar sem Scott ók var brotið.

Slager, sem er 33 ára, var handtekinn og ákærður fyrir morð eftir að myndskeið af atvikinu var birt á netinu. At­vikið var tekið upp á mynda­vél í lög­reglu­bíln­um en þar sést Scott hlaupa í burtu úr bíl sín­um og í mynd­skeiði sem vitni tók upp á síma sinn sést þegar Slager skýt­ur átta skot­um á Scott á flótt­an­um. Fimm þeirra hæfðu hann.

Borg­ar­yf­ir­völd í North Char­lest­on samþykktu í október að greiða fjöl­skyldu Walters Scotts 6,5 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, sem svar­ar til 820 millj­óna króna, í bætur. Borg­ar­ráð í North Char­lest­on samþykkti sam­komu­lagið mót­atkvæðalaust. 

Greiða fjölskyldunni bætur

mbl.is