Fjórtán ára indverskri stúlku var haldið fanginni hópi karlmanna í tvær vikur og nauðgað ítrekað á þeim tíma. Hún var að lokum skotin tvisvar með byssu og varpað ofan í brunn í útjaðri Nýju Delhi, höfuðborgar Indlands. Stúlkunni var að eigin sögn rænt 22. nóvember þegar hún var á á leið fótgangandi á markað í vesturhluta borgarinnar.
Stúlkan greindi frá hræðilegri reynslu sinni í viðtali við sjónvarpsstöðina NDTV sem sýnt var í morgun samkvæmt frétt AFP. Hún sagði að henni hafi verið haldið í dimmu herbergi og þrír árásarmennirnir hafi skipst á að nauðga henni í tvær vikur. Að þeim tíma liðnum hafi þeir sagt henni að þeir ætluðu að láta hana lausa. Þeir hafi flutt hana í bifreið og ekið að verslun til þess að kaupa áfengi. Síðan hafi þeir lagt bifreiðinni við brunninn.
„Þeir sögðu að þeir ætluðu að sleppa mér en þegar ég hörfaði aðeins skutu þeir tveimur skotum. Fyrra skotið lenti í beini. Ég fann ekki neitt fyrir því, líkaminn minn varð bara dofinn. En eftir síðara skotið leið yfir mig,“ sagði stúlkan. Hún vaknaði skjálfandi af kulda í brunninum þar sem mennirnir höfðu skilið hana eftir til að deyja að hennar sögn.
„Þegar ég komst til meðvitundar sá ég byssukúlu í brjóstinu á mér og fjarlægði hana,“ sagði stúlkan ennfremur og sýndi fréttamanninum sárið. Vegfarendur hjálpuðu henni upp úr brunninum 6. desember eftir að þeir heyrðu hana kalla á hjálp. Stúlkan var síðan flutt á sjúkrahús. Nokkrir menn hafa verið handteknir vegna árásarinnar.
„Ég vil að nauðgararnir verði hengdir. Enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum það sem ég gerði,“ sagði stúlkan. Kastljósinu var beint að landlægu kynferðisofbeldi gegn konum á Indlandi árið 2012 þegar hópur karlmanna nauðgaði ungri námskonu í strætisvagni sem leiddi til dauða hennar. Viðurlög hafa í kjölfarið verið hert og málsmeðferðum hraðað.