Jóhann Jóhannsson mun ekki keppa við neina aukvisa á Óskarsverðlaununum 28. febrúar næstkomandi. Hin tónskáldin sem keppa í flokknum besta tónlistin hafa samanlagt hlotið 70 Óskarstilnefningar á ferli sínum.
Jóhann var fyrr í dag tilnefndur til verðlaunanna í annað sinn, fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Sicario.
Frétt mbl.is: Jóhann tilnefndur til Óskarsverðlauna
Goðsögnin John Williams hlaut sína fimmtugustu Óskarstilnefningu fyrir tónlist sína í Star Wars: The Force Awakens. Fimm sinnum hefur hann hlotið verðlaunin eftirsóttu, m.a. fyrir myndirnar E.T., The Schindler´s List og Star Wars frá árinu 1977. Aðeins einn einstaklingur hefur hlotið fleiri Óskarstilnefningar en Williams, eða Walt Disney.
Thomas Newman er tilnefndur fyrir tónlist sína í Bridge of Spies. Hann hefur þrettán sinnum verið tilnefndur til Óskarsins en aldrei hreppt verðlaunin. Á meðal annarra mynda sem hann hefur unnið við eru The Shawshank Redemption, American Beauty og Skyfall.
Ítalinn Ennio Morricone er tilnefndur fyrir tónlist sína í Tarantino-myndinni The Hateful Eight. Hann hefur samtals hlotið sex Óskarstilnefningar fyrir tónlist sína í myndum á borð við The Untouchables og Bugsy en aldrei unnið. Hann hlaut aftur á móti Óskarsverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar, enda sannkölluð goðsögn í bransanum. Hann er einna þekktastur fyrir tónlist sína í spaghettívestrum Sergio Leone með Clint Eastwood í aðalhlutverki.
Carter Burwell er fjórða tónskáldið sem Jóhann Jóhannsson mun etja kappi við í febrúar. Hann er að fá sína fyrstu Óskarstilefningu fyrir tónlistina í Carol.