Tónskáldið Jóhann Jóhannsson var rétt í þessu tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Sicario. Jóhann var einnig tilnefndur á síðasta ári fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything en fékk ekki verðlaunin. Hann fékk hinsvegar Golden Globe verðlaunin á síðasta ári fyrir tónlist sína í myndinni.
Fjögur önnur tónskáld eru tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir bestu tónlistina. Það eru Thomas Newman fyrir tónlistina í Bridge of Spies, Carter Burwell fyrir tónlistina í Carol, Ennio Morricone fyrir tónlistina í The Hateful Eight og goðsögnin John Williams fyrir tónlistina í Star Wars: The Force Awakens.
Óskarsverðlaunin verða haldin í Los Angeles 28. febrúar næstkomandi.