Allir þeir leikarar og leikkonur sem tilnefnd eru til Óskarsverðlauna í ár eru hvít, rétt eins og á síðasta ári. Myllumerkið „#OscarsSoWhite hefur verið notað af notendum Twitter til að lýsa yfir vonbrigðum sínum á vali Óskarsakademíunnar.
Bent hefur verið á að fjölmargir leikarar sem flokkast ekki sem hvítir hafi ekki fengið tilnefningar til Óskarsverðlaunana í ár. Eru þar nefndir leikarar eins og Idris Elba fyrir leik sinn i í Beats of No Nation, Michael B. Jordan og Tessa Thomspon fyrir hlutverk sín í Creed og Benicio del Toro í Sicaro. Þá fékk ein stærsta mynd síðasta árs, Straight Outta Compton, sem segir frá þeldökkum röppurum í Compton í Kaliforníu, aðeins eina tilnefningu, fyrir handrit. Kaldhæðnin er sú að höfundar handritsins eru hvítir.
Blaðamaður The Guardian bendir á að Idris Elba hafi verið þrisvar tilnefndur til Screen Actors Guild verðlaunanna í ár og tvisvar til Golden Globe. Hann fékk þó ekki tilnefningu frá Óskarsakademíunni í ár.
Fyrrnefnd kvikmynd Creed, fékk aðeins eina tilnefningu, fyrir leik einu hvítu stjörnu myndarinnar, Sylvester Stallone.
Óskarsakademían hefur þó ekki verið aðeins gagnrýnd fyrir að tilnefna aðeins hvíta. Einnig hefur það verið fordæmt að leikstjóri myndarinnar Carol, hinn samkynhneigði Todd Haynes, var ekki tilnefndur sem besti leikstjórinn, þrátt fyrir að myndin hafi hlotið sex tilnefningar. Haynes var tilnefndur fyrir bestu leikstjórn á Bafta verðlaununum, Golden Globes og Directors Guild of America en fékk ekki tilnefningu frá Óskarsakademíunni.
Þess má geta að engin þeldökkur leikstjóri hlaut tilnefningu fyrir bestu leikstjórn þetta árið. Þeldökkur leikstjóri var síðast tilnefndur árið 2013 en kona árið 2009.