Clooney og Nyong'o gagnrýna valið

Leikararnir George Clooney og Lupita Nyong.
Leikararnir George Clooney og Lupita Nyong. AFP/Samsett mynd

Leikararnir George Clooney og Lupita Nyong'o hafa nú bæst í hóp þeirra sem gagnrýna skort á fjölbreytileika þeirra sem tilnefndir eru til Óskarsverðlaunana. Allir þeir tuttugu leikarar sem tilnefndir eru fyrir bestan leik eru hvítir á hörund.

Clooney segir Óskarsakademíuna ekki vera á réttri leið. Sjálfur hefur hann tvisvar hlotið verðlaunin. „Við verðum að verða betri í þessu, við vorum betri í þessu,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla. Vísar hann til ársins 2004 en þá voru svartir leikarar á borð við Don Cheadle og Morgan Freeman tilnefndir.

Nyong'o hlaut Óskarsverðlaunin árið 2014 sem besta leikkonan í aukahlutverki. Hún segist standa með þeim sem kalla eftir breytingum og sagðist hún einnig vera vonsvikin vegna málsins.

Leikstjórinn Spike Lee og leikkonan Jada Pinkett Smith hafa bæði lýst því yfir að þau muni sniðganga verðlaunin vegna málsins.

mbl.is