Lögreglumaður fékk 263 ára dóm

Ofbeldi gagnvart svörtu fólki af hálfu hvítra lögreglumanna í Bandaríkjunum …
Ofbeldi gagnvart svörtu fólki af hálfu hvítra lögreglumanna í Bandaríkjunum hefur vakið mikla reiði meðal almennings. AFP

Fyrrverandi lögreglumaður í Oklahomaríki var í gær dæmdur í 263 ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað og beitt svartar konur kynferðislegu ofbeldi er hann sinnti skyldustörfum.

Daniel Holtzclaw, sem er 29 ára gamall hvítur lögreglumaður, var í desember fundinn sekur um nauðgun og að hafa neytt konur til munnmaka. Alls var hann dæmdur fyrir 18 af 36 ákæruliðum. Dómari kvað upp refsinguna í gær og er hún í samræmi við það sem kviðdómur lagði til, það er 263 ára fangelsi.

Verjandi Holtzclaws, Scott Adams, segir að niðurstaðan hafi ekki komið á óvart enda í samræmi við það sem lagt var til í desember.

Að sögn saksóknara réðst Holtzclaw á svartar konur í fátækrahverfum Oklahomaborgar frá því seint á árinu 2013 fram á mitt ár 2014.

Kona á sex­tugs­aldri er ein þeirra kvenna sem báru vitni í mál­inu. Hún seg­ir að þegar hún var á heim­leið ak­andi seint um kvöld hafi Holtzclaw gefið sér merki um að nema staðar. Hann spurði hvort hún hefði verið að drekka áfengi og skipaði henni að koma yfir í lög­reglu­bíl­inn. Þar neyddi hann hana til munn­maka. 

Annað fórn­ar­lamb hans, 17 ára göm­ul stúlka, seg­ir að Holtzclaw hafi boðið sér far þegar hún var á heim­leið gang­andi að kvöld­lagi. Hann hafi sagt henni að hann þyrfti að leita á henni, neytt hana úr föt­un­um og nauðgað henni.

Lög­fræðing­ur Holtzclaws hélt því fram við rétt­ar­höld­in að skjól­stæðing­ur hans hefði verið að reyna að aðstoða eit­ur­lyfjafíkla og vænd­is­kon­ur sem hann hitti í starfi sínu í fá­tækra­hverf­inu. Marg­ar kvenn­anna eru á saka­skrá fyr­ir neyslu fíkni­efna.

Frétt mbl.is: Lögreglumaður nauðgaði átta konum

mbl.is