Sex karlar voru dæmdir sekir fyrir hópnauðgun og morð á rúmlega tvítugri stúlku í indversku borginni Kalkútta. Mennirnir réðust á hana þegar hún var á heimleið úr prófi. Refsingin verður birt á morgun en þeir eiga allir yfir höfði sér dauðadóm fyrir ódæðið.
Gríðarleg öryggisgæsla var við dómshúsið í Kalkútta í morgun þegar dómurinn var kveðinn upp áðan enda vakti ódæðið mikla reiði meðal almennings þar sem ítrekað hafa komið upp mál sem sýna hversu algengt kynbundið ofbeldi er í landinu.
Saksóknari, Dipak Ghosh, sagði eftir dómsuppkvaðninguna að mennirnir hafi allir verið fundnir sekir um að hafa nauðgað stúlkunni, sem var 21 árs gömul, og myrt hana. Tveir voru sýknaðir vegna skorts á sönnunum gagnvart þeim. Vægasta refsingin sem þeir geta vænst er 20 ára fangelsi.
Hópurinn réðst á ungu konuna sem var háskólanemi þegar hún var á núkomin til þorpsins sem hún bjó í, um 50 km norðaustur af Kalkútta, í júní 2013 eftir að hafa tekið próf við háskólann í Kalkútta þar sem hún stundaði nám.
Mennirnir réðust á hana þegar hún kom út úr strætisvagninum og fóru með hana á eyðibýli þar skammt frá. Hún fannst kefluð liggjandi í blóð sínu á akri við eyðibýlið morguninn eftir. Augljóst var að henni hafði verið ítrekað nauðgað.
Íbúar í Vestur-Bengal ríki brugðust ókvæða við er fréttist af árásinni enda aðeins nokkrir mánuðir frá því ungri konu var nauðgað svo hrottalega í höfuðborg Indlands að hún lést af völdum áverka sinna.