Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður, er ánægður með að gæsinni sem fannst nær dauða en lífi við Lækjargötu í Hafnarfirði, hafi verið komið til bjargar.
Síðastliðinn þrjú ár hefur hann hlúð að fuglalífinu við Lækinn í Hafnarfirði og hefur hann sérstakt leyfi til þess frá bæjaryfirvöldum.
Guðmundur, sem var vant við látinn þegar hann frétti af frosnu gæsinni, segir sjaldgæft að gæsir frjósi í hel við Lækinn. „Það er algengara þegar maður fréttir af því að þær eru orðnar dauðar og hrafninn er farinn að gæða sér á þeim,“ segir hann og bætir við að gæsirnar séu í auknum mæli farnar að halda sig til í húsagörðum.
„Þær eiga það til að koma og banka á glugga ef þær fá ekki brauðið sitt reglulega, en það á samt sérstaklega við um endurnar. Það er því ekkert óhefðbundið að þessi gæs hafi fundist við útidyrahurð.“
Frétt mbl.is: Björguðu lífi frosinnar gæsar
Guðmundur, sem er ættaður norðan af Ströndum, segist vera vanur því að hlúa að æðavarpi. „Ég er búinn að ala upp fjögur börn í Hafnarfirði og mér leiddist að sjá hve ungarnir voru að hverfa strax í mávinn. Lækurinn var afskiptur og ég fékk leyfi til að taka þetta að mér til að reyna að fylgja ungunum sem komast á legg. Það er eitt og annað í umhverfinu sem ungum er hættulegt. Bærinn hefur brugðist við þeim ábendingum og lagað til þannig að þeir eigi möguleika.“
Guðmundur, sem starfar við að leita uppi týnd börn, hvetur fólk til að hlúa að ungunum.„Þegar ungarnir eru farnir að sjást á sumrin þarf að passa að vargurinn fái ekki of mikinn frið til að éta þá.“
Hann kveðst koma við hjá Læknum nánast á hverjum degi til að kanna stöðu mála. „Núna er mjög kalt og það þarf að ýta á fólk að gefa fuglunum. Það má gefa þeim ferskt kál og korn, sérstaklega þegar það er svona rosalega kalt. Þá þurfa þeir meira en þurrt brauðið.“
Þeir sem vilja fylgjast með verkefninu við Lækinn geta skoðað síðuna Project Henry á Facebook. „Á Ísafirði er Henry Bæringsson. Beint á móti húsinu hans er óræktarsvæði. Hann sendi bæjarfélaginu bréf og spurði hvort hann mætti taka svæðið í fóstur. Hann fékk það og setti upp leiktæki þar. Þannig kveikti hann hugmyndina hjá mér. Ég sendi því Hafnarfjarðarbæ bréf og spurði hvort ég mætti fylgjast með fuglalífinu við Lækinn," segir Guðmundur.