Einsleitnin átakanleg

Halle Berry segir átakanlegt að horfa upp á fábreytileikann sem …
Halle Berry segir átakanlegt að horfa upp á fábreytileikann sem einkennir bandarískar kvikmyndir. AFP

Árið 2001 hlaut Halle Berry Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Monsters Ball. Berry vonaði að verðlaunin væru til marks um aukna fjölbreytni í bandarískum kvikmyndum, og hélt að frammistaða hennar hefði opnað dyr fyrir aðra hörundsdökka leikara.

„Á þessu augnabliki, þegar ég tók á móti verðlaununum, trúði ég því með hverju beini í líkama mínum að verðlaunin myndu hafa breytingar í för með sér.“

„Að sitja hér, næstum 15 árum síðar, vitandi það að engin hörundsdökk leikkona hefur ennþá gengið í gegnum sömu dyr og ég gerði er átakanlegt.“

Leikkonan benti einnig á að kvikmyndargerðarfólki bæri skylda til að horfa á stóru myndina og ekki gleyma því að fólk af öllum kynþáttum tækju þátt í því að skapa söguna.

„Í raun og veru snýst þetta um að segja sannleikann. Sem kvikmyndagerðarfólk og leikarar ber okkur skylda til að segja sannleikann. Og, að mínu mati, eru kvikmyndirnar sem framleiddar eru í Hollywood ekki sannleikanum samkvæmt.“

Mikil óánægja ríkir vegna tilnefninga til Óskarsverðlauna, en annað árið í röð eru allir þeir 20 leikarar sem tilnefndir eru fyrir besta leik hvítir á hörund. Þá hafa fjölmargir látið í sér heyra, til að mynda ætla leikarahjónin Will og Jada Pinkett Smith að sniðganga hátíðana, sem og leikstjórinn Spike Lee.

Frétt Mirror

mbl.is