„Ætlar ráðherra með reikninginn?“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, þingmaður Vinstri grænna, spurði Sig­urð Inga Jó­hanns­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, að því í dag hvort ákvörðunar væri að vænta varðandi stuðning við smærri byggðarlög­in í land­inu vegna inn­flutn­ings­banns Rússa á ís­lensk­ar sjáv­ar­af­urðir.

Nefndi hann bæi á borð við Þórs­höfn, Vopna­fjörð og Djúpa­vog í því sam­hengi. „Þetta er sér­stak­lega erfitt fyr­ir litlu byggðarlög­in þar sem er ein­hæft at­vinnu­líf,“ sagði Stein­grím­ur og bætti við að í skýrslu Byggðastofn­un­ar kæmi fram að tekjutapið verði um­tals­vert bæði hjá land­verka­fólki, sjó­mönn­um og sveit­ar­fé­lög­um vegna banns­ins.

Sveit­ar­fé­lög beri ekki all­an her­kostnaðinn

„Mitt mat er að það geti ekki gengið að land­verka­fólk og veik­b­urða og fá­menn sveit­ar­fé­lög beri all­an her­kostnað af ut­an­rík­is­stefnu lands­ins. Það er ekki hægt að ætl­ast til þess að menn sendi reikn­ing­inn norður á Vopna­fjörð. Er ekki senn að vænta ákvörðunar í mót­vægisaðgerðum?,“ spurði hann Sig­urð Inga á Alþingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Ráðherra sagði það rétt að land­verka­fólk verði fyr­ir um­tals­verðu tjóni vegna banns Rússa og að verið sé að skoða með hvaða hætti eigi að koma til móts við fólkið. Hann sagði þó að loðnu­brest­ur væri einnig að koma illa við þessi smærri bæj­ar­fé­lög.  „Það er ekki bara Rús­sa­málið sem verður til þess að loðnan er minni,“ sagði hann og bætti við að rík­is­stjórn­in réði ekki yfir nátt­úru­öfl­un­um.

Fund­ur á Vopnafirði á þriðju­dag

Að sögn Sig­urðar Inga er fund­ur fyr­ir­hugaður á Vopnafirði næst­kom­andi þriðju­dag þar sem heima­menn verða upp­lýst­ir um hvaða hlut­ir eru í vinnslu. Byggðar­stofn­un fer með það verk­efni fyr­ir hönd rík­is­stjórn­ar­inn­ar.  „Við erum að reyna að finna lausn­ir til að geta komið til móts við byggðarlög­in með ein­hverj­um hætti.“

Stein­grím­ur sagði mik­il­vægt að málið verði leitt til lykta og að mót­vægisaðgerðir séu bráðnauðsyn­leg­ar. „Land­verka­fólk og sveit­ar­fé­lög þurfa stuðning. Ætlar ráðherra sjálf­ur með reikn­ing­inn norður á Þórs­höfn eða aust­ur á Djúpa­vog?"

mbl.is