Helen Mirren ver akademíuna

Helen Mirren stillir sér upp á Screen Actors Guild verðlaununum …
Helen Mirren stillir sér upp á Screen Actors Guild verðlaununum sem fram fóru fyrir skemmstu. AFP

Leikkonan Helen Mirren kom óskarsakademíunni til varnar á dögunum þegar hún sagði að það væri óréttlátt að kenna henni um þá einsleitni sem ríkir í tilnefningum til verðlauna þetta árið.

Margir eru ósáttir við störf akademíunnar, en annað árið í röð voru aðeins hvítir leikarar tilnefndir til verðlauna fyrir besta leikinn.

„Ég held að það sé ósanngjarnt að ráðast á akademíuna. Þetta fór bara svona þetta árið,“ sagði leikkonan í fréttatíma Channel 4.

„Það sem ég er að segja er að við þurfum að horfa á það sem gerist áður en myndir komast á Óskarinn, hvers konar myndir eru framleiddar, leikaraval þeirra og handrit. Þegar allt kemur til alls hafa þessir hlutir miklu meiri áhrif en hver stendur uppi á sviði með Óskarinn.“

Aðspurð hvers vegna hún teldi leikarann Idris Elba, sem hlaut SAG-verðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki, ekki hafa fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna sagði hún:

„Idris Elba hefði tvímælalaust verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Ástæðan fyrir því að hann var það ekki er sú að ekki nógu margir sáu, eða vildu sjá, kvikmynd um barnunga hermenn.“

Eins og frægt er orðið hafa ýmsir kvikmyndagerðarmenn tilkynnt að þeir muni sniðganga hátíðina í ár, þeirra á meðal eru leikarahjónin Will og Jada Pinkett-Smith og leikstjórinn Spike Lee.

Frétt Mirror.

mbl.is