Lögreglumaður í New York hefur verið sakfelldur fyrir að hafa skotið óvopnaðan mann til bana. Dómurinn var kveðinn upp í gær en refsingin verður ákveðin 14. apríl.
BBC greinir frá því að lögreglumaðurinn Peter Liang gæti fengið allt að 15 ára dóm fyrir að drepa Akai Gurley.
Atvikið átti sér stað fyrir tæpum tveimur árum í félagsíbúðakjarna í Brooklyn. Peter Liang var að sinna eftirlitsstörfum í stigagangi þegar hann varð var við óvenjulegt hljóð. Hann lýsti fyrir dómnum að hann hefði fyllst skelfingu og tók því upp byssu sína. Að skjóta úr henni hefðu hins vegar verið mikil mistök.
Atvik þar sem að óvopnaðir einstaklingar eru skotnir til bana af lögreglu í Bandaríkjunum hafa verið í brennidepli undanfarin misseri og því hefur hópur fólks sem vekja vill athygli á ábyrgðarskyldu lögreglunnar fylgst grannt með réttarhöldunum. Málið hefur vakið sérstaka athygli þar sem fórnarlambið, Akai Gurley, var 28 ára og þeldökkur.
Dómur hefur sjaldan fallið í málum af þessu tagi og ber þar hæst mál Eric Garner sem lést eftir að hafa verið beittur ofbeldi af lögreglu við handtöku í júlí 2014. Í kjölfarið brutust út hörð mótmæli.
Lögreglumenn sem lýsa yfir stuðningi við Liang, sem er af kínversk-amerískum uppruna, segja að verið sé að gera hann að blóraböggli fyrir sams konar dómsmál. Stuðningsmenn Liang segja að um slys hafi verið að ræða, ekki glæp.
Saksóknari í málinu sagði hins vegar að Liang hafi beitt vopni sínu gáleysislega og gert lítið til þess að koma Gurley til aðstoðar eftir að hafa skotið hann.
Liang sagðist þá að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að skot hans hefði hæft einhvern.
Fyrri frétt mbl.is: Lögreglumaður ákærður vegna voðaskots