Flest bendir til þess að mótmæli sem boðað hafði verið til fyrir utan höfuðstöðvar bandarísku ruðningsdeildarinnar NFL gegn söngkonunni Beyoncé í gær hafi verið gabb. Í það minnsta lét enginn mótmælandi sjá sig og þeir einu sem voru á staðnum voru lögreglumenn og einstaka gagnmótmælandi.
Merkingarþrungin hálfsleikssýning Beyoncé á Ofurskálinni fyrir einni og hálfri viku vakti mikið umtal en með flutningi sinum á laginu „Formation“ tók hún einarða afstöðu með blökkumönnum í Bandaríkjunum gegn ofríki lögreglu. Sumir brugðust ókvæða við og töldu söngkonuna hatast við lögreglumenn. Boðaði hópur sem kallaði sig Proud of the Blues til mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar NFL í New York í gærmorgun vegna ákvörðunar ruðningsdeildarinnar um að bjóða sómakæru fólki upp á atriðið.
Enginn mætti hins vegar á staðinn og segir í frétt Washington Post af mótmælunum sem aldrei urðu að líkur séu á að þau hafi einfaldlega verið gabb. Ekki hafi farið mikið fyrir hópnum sem boðaði til þeirra í netheimum áður og ekki sé krafist mikilla staðfestinga af notendum vefsíðunnar þar sem þeir birtu boðin.