Sífellt fleiri konur sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis í Noregi hafa kynnst árásarmanninum á stefnumótavefjum og smáforritum eins og Tinder. Þetta segja bæði lögregla og miðstöðvar nauðgunarmála í viðtali við VG.
Upplýsingarfulltrúi lögreglunnar í Ósló, Kari-Janne Lid, segir að í fyrra hafi þeim nauðgunarmálum, þar sem fórnarlambið og nauðgarinn kynntust á Tinder og slíkum vefjum, fjölgað umtalsvert.
Árið 2014 féllu 29% nauðgunarmála í þennan flokk en í fyrra var hlutfallið komið í 40%. Ann Helen Lomsdalen, sem stýrir neyðarmóttöku fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis, í Frederikstad, segir að þar sé farið að vara konur við því að fara varlega í að hitta menn sem þær kynnast á Tinder. „Við sjáum sífellt fleiri nauðganir í tengslum við Tinder stefnumót. Þetta er þróun sem ég tel ógnvænlega,” segir hún í viðtali við VG.
Þrjú af níu nauðgunar málum sem hafa komið til kasta miðstöðvarinnar í ár eru kynferðislegt ofbeldi í kjölfar sambands í gegnum Tinder. Hún segir að þetta sé kannski ekki há tala en það sé mynstrið sem hræði.
Í úttekt VG er rætt við starfsmenn á fleiri nauðgunarmiðstöðvum og hafa þeir svipaða sögu að segja.