Lögreglan á Indlandi hefur handtekið tvo karlmenn fyrir að hafa skotið 14 ára stúlku til bana. Mennirnir eru grunaðir um að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega og myrt hana þar sem hún hafi ekkert viljað með þá hafa samkvæmt frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að mennirnir hafi verið á ferðinni á vélhjólum og áreitt stúlkuna og eldri systur hennar kynferðislega þegar þær voru á leið heim til sín fótgangandi í norðurhluta Indlands. Haft er eftir lögreglumanninum Rahul Mithas að stúlkurnar hafi beðið mennina að hætta því og annar þeirra hafi þá skotið yngri stúlkuna til bana.
Mennirnir flúðu af vettvangi en voru handteknir í kjölfar þess að eldri stúlkan gaf lögreglunni greinargóða lýsingu á þeim. Indverskir fjölmiðlar segja að stúlkurnar hafi áður kvartað til lögreglunnar yfir hegðun mannanna sem hefðu ítrekað áreitt þær.