Í dag er alþjóðlegum degi ísbjarna fagnað um allan heim. Þessi tignarlega vera er eins og margir vita á lista dýrategunda í útrýmingahættu og hefur bráðnun jökla síðustu ár haft alvarleg áhrif á lífríki ísbjarna.
Ísbirnir lifa viltir í Kanada, Alaska í Bandaríkjunum, Grænlandi, Rússlandi og Svalbarða í Noregi. Þá eru ísbirnir í mörgum dýragörðum heims, m.a. í Moskvu, Berlín, Kaupmannahöfn og San Diego.
Erfitt er að meta heildarfjölda ísbjarna í heiminum en líffræðingar telja að fjöldinn sé á bilinu 20-25.000 eða 22-31.000.
Frægasti ísbjörn seinni tíma er líklega Knútur en hann fæddist í dýragarðinum í Berlín árið 2006. Móðir hans hafnaði honum og var hann því alinn upp af dýragarðsstarfsmönnum. Knútur vakti mikla athygli fyrst um sinn, enda algjört krútt, en þótti síðan sína undarlega hegðun í garðinum.
Myndbandið hér að neðan sýnir yndisleg myndbönd af Knúti og skemmtileg lag um dýrið er spilað undir.
Talið er að Knútur hafi verið lagður í einelti af öðrum ísbjörnum og að hann hafi þjáðst af atferlistruflun sem varð til þess að hann sótti í athygli mannfólks. Til eru dæmi um að Knútur hafi fengið bræðiköst ef hann fékk ekki athygli.
Árið 2011 drukknaði Knútur í laug sinni í dýragarðinum fyrir framan fjölmarga gesti. Í ágúst á síðasta ári kom í ljós að Knútur fékk flog sem varð til þess að hann drukknaði. Flogið varð vegna sjálfsofnæmissjúkdóms sem varð til þess að heili ísbjarnarhúnsins bólgnaði upp.
Þegar að frægðarsól Knúts skein sem skærast prýddi hann m.a. forsíðu Vanity Fair tímaritsins sem og þýsk frímerki.