Telst ekki atvinnusjúkdómur

Mygla á vinnustað getur leitt til veikinda meðal starfsfólks.
Mygla á vinnustað getur leitt til veikinda meðal starfsfólks. mbl.is/Ómar

Veikindi vegna myglu á vinnustað telst ekki atvinnusjúkdómur að mati vinnuveitenda og hefur þetta umtalsverð áhrif á réttindi starfsmanna, segir  Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM. Erna var meðal flytjenda á ráðstefnunni Myglusveppur ógn við heilsu starfsfólk, sem BHM stóð fyrir í morgun.

„Tilgangurinn með ráðstefnunni var að opna umræðuna um réttarstöðu starfsmanna sem veikjast af völdum myglusvepps á vinnustað og varpa á hana skýrara ljósi.“ Erna segir að ýmislegt hafi komið sér verulega á óvart er hún fór að skoða þessi mál. „Það er búið að tryggja ágætlega réttindi starfsmanna sem eiga við veikindi að stríða, eða sem hafa orðið fyrir vinnuslysi eða atvinnusjúkdómum. Þetta er tryggt með lögum, kjarasamningum, reglum, sjúkrasjóðum og fleiru.  Við lestur reglugerða taldi ég rétt þeirra sem veikjast af völdum myglusvepps líka vera tryggðan þarna og það kom mér því á óvart að vinnuveitendur hafna því að veikindi vegna myglunnar telist vera atvinnusjúkdómur.“

Íhuga að láta reyna á túlkunina fyrir dómstólum

Af þessum sökum njóti starfsmenn sem veikjast af völdum myglusvepps þess ekki að í kjarasamningum er kveðið á um sérstakan 13 vikna rétt á launum vegna atvinnusjúkdóms. Erna segir að alvarlega þurfi að íhuga að fara með þessa túlkun fyrir dómstóla og láta reyna á hvort um atvinnusjúkdóm sé að ræða. „Það er alveg ljóst að flestir sem veikjast alvarlega af völdum myglusvepps eru með slæm einkenni í öndunarfærum og enda jafnvel með krónískan öndunarfærasjúkdóm.“ Verði farið út í málarekstur þá þurfi að vanda vel til verka þar sem málið yrði fordæmisgefandi prófmál.

Erna segir  þá starfsmenn sem koma til hennar með sín mál marga hverja vera þegar búna með veikindarétt sinn og búnir að tæma sjúkrasjóði. Stéttarfélög  velti því hins vegar fyrir sér af hverju starfsmenn þurfi að nota almennan veikindarétt sinn þegar um er að ræða aðbúnað á vinnustað, sem atvinnurekandanum bera að tryggja að sé í lagi. „Ég er með nokkur dæmi þar sem starfsmenn hafa ekki geta snúið til baka á sinn vinnustaðar og hafa því þurft að segja upp og það er ekki góð staða.“

Gróin getur borist á milli

Hún segist telja að flestir vinnuveitendur reyni þó að leggja sitt af mörkum m.a. með því að færa starfsfólk til eða opna nýjar starfsstöðvar. „En stundum er það ekki nóg og stundum er það bara of seint.“ Hún nefnir sem dæmi að starfsmenn sem vinni með pappíra sem koma úr sýktu umhverfi geti veikst ef pappírunum fylgir gró.

„Það hefur líka stundum tekið starfsmenn langan tíma að fá viðurkennt að eitthvað sé að og ég er með dæmi um fólk sem hefur verið á sama vinnustað áratugum saman og er talið móðursjúkt af því að það gengur á milli lækna án þess að orsökin finnist. Það er svo ekki fyrr en fleiri fara að veikjast að það er farið að skoða málin,“ segir Erna og nefnir Landspítalann sem dæmi.

mbl.is