Lögreglan í Ósló handtók þrjá unglingspilta á þriðjudag en þeir eru grunaðir um fjölmargar nauðganir á ungum stúlkum, að hafa tekið ódæðin upp á myndskeið og dreift á lokuðum síðum á Facebook.
Norska lögreglan segir að mikil aukning sé í að ungmenni, oft undir lögaldri, séu beitt þrýstingu um að birta af sér nektarmyndir á netinu. Að sögn Kari-Janne Lid, varðstjóra í lögreglunni í Ósló, hefur lögreglan í nokkurn tíma verið að rannsaka nauðganir tengdar ákveðnum hópi ungmenna í borginni. Á þriðjudag lét lögreglan til skarar skríða og handtók þrjá unglingspilta sem eru kærðir fyrir að að hafa nauðgað hópi stúlkna sem allar eru yngri en þeir. Sumar þeirra eru undir aldri, það er yngri en fimmtán ára. Þetta kemur fram í VG.
Að sögn lögreglu var myndskeiðum sem þeir tóku upp á síma sína dreift á lokaðan hóp á Faceobook og bloggsíðum. Jafnframt voru myndskeiðin send beint á bekkjarfélaga á milli farsíma. Ein piltanna hefur verið látinn laus úr haldi en farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir hinum tveimur.
Að sögn sérfræðinga á sviði kynferðisbrota og netglæpum hjá norsku lögreglunni endurspeglar þetta hversu algengt það er meðal ungs fólks að birta hvað sem er á netinu og hjálparleysi foreldra sem oft hafa ítrekað reynt að vara börn sín við hættunum sem fylgja. Þeir segja að unglingar, bæði stelpur og strákar, séu oft tældir til þess að deila nektarmyndum af einhverjum sem þeim líkar við og þeir telja að hafi áhuga á þeim. Þeim er síðan hótað að myndinni verði dreift opinberlega ef viðkomandi sendir ekki fleiri nektarmyndir, helst grófari og jafnvel myndskeið.
Lögreglan biður foreldra um að útskýra fyrir börnum sínum að það sé aldrei í lagi að láta þvinga sig eða tæla til að birta eitthvað eða gera eitthvað sem manni er á móti skapi. Oft eru unglingar ekki færir um að verja sig í slíkum málum og þá er það í höndum foreldra að grípa inn. Eins að útskýra reglulega fyrir börnum sínum muninn á réttu og röngu, hvað sé í lagi og hvað ekki.
Oft megi heyra fórnarlömbin gráta þegar manneskjan hinum megin á línunni skipar viðkomandi fyrir þegar lögreglan fær upplýsingar um slík myndskeið. Gríðarleg aukning hefur orðið í kynferðisglæpum í Noregi á milli ára, það er 2014 og 2015, samkvæmt umfjöllun VG.
Eitt besta ráðið sem lögregla getur gefið ungu fólki er að birta aldrei nektarmyndir á Snapchat, aldrei, og helst sleppa því að taka slíkar myndir. Ef myndin er ekki tekin þá gefur auga leið að hún birtist aldrei.