300 starfsmenn Íslandsbanka í skimun

Íslandsbanki að Kirkjusandi.
Íslandsbanki að Kirkjusandi. mbl.is/Ómar

Tæplega 300 starfsmenn Íslandsbanka á Kirkjusandi hafa farið í heilsufarsskimun vegna myglusvepps sem hefur fundist í byggingarefnum í húsnæðinu.  Um 400 manns starfa á Kirkjusandi.

Þá hefur sérstakur fræðslufundur verið haldinn fyrir starfsfólk, auk þess sem upplýsingagjöf til starfsmanna hefur verið regluleg.

Þetta kemur fram í svari Íslandsbanka við fyrirspurn mbl.is um stöðu mála á Kirkjusandi en fyrir tæpum mánuði síðan greindi mbl.is frá myglunni í húsnæðinu.

Frétt mbl.is: Myglusveppur í höfuðstöðvum Íslandsbanka

„Að undanförnu hafa ítarlegar rannsóknir staðið yfir á byggingarefnum í húsnæði bankans á Kirkjusandi. Nú er beðið eftir niðurstöðum en það liggur fyrir að myglusvepp sé að finna í byggingarefnunum en loftsýni í rýmunum hafa hinsvegar komið vel út.Til að bæta loftgæði sem mest hefur viðamikið verkefni sem snýr að hreinsun loftræsiskerfis og alþrif vinnurýma verið sett í gang og er langt komið,“ segir í svari Íslandsbanka.

„Það er stjórnendum bankans mikilvægt að starfsmenn búi við heilsusamlegt vinnuumhverfi og er lögð mikil áhersla á að halda starfsmönnum upplýstum um gang mála. Ekki ætti að líða langur tími þar til hægt verður að greina frá frekari áætlun.“

mbl.is