Börn mega ekki hræðast kerfið

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að með tilkomu sérstaks neyðarsíma …
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að með tilkomu sérstaks neyðarsíma fyrir börn sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi vonist Stígamót til þess að með samvinnu fagaðila og barnanna verði hægt að koma málum þeirra inn í kerfið, án þess að börnin upplifi hræðslu. mbl.is/Árni Sæberg

Flest kynferðisbrot eiga sér stað þegar þolendur eru á aldrinum 11-17 ára. Flestir leita sér þó aðstoðar á aldrinum 18-29 ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Stígamóta árið 2015, sem kynnt var í dag.

„Við erum fyrst og fremst að hitta fólk á aldrinum 18-29 ára en fólk er að koma til okkar fram eftir öllum aldri vegna kynferðisofbeldis sem átti sér stað í æsku,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.  

Neyðarsími fyrir börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi

Í skýrslunni kemur einnig fram að 71,1% þolenda sem leituðu til samtakanna í fyrra var beitt ofbeldi áður en þau höfðu náð 18 ára aldri. 26,8% voru á aldrinum 5-10 ára. „Það er verið að meiða litla krakka sem rata ekki hingað eða neitt annað fyrr en þau eru orðin fullorðin,“ segir Guðrún. Þessar tölur sýna hópinn sem leitar ekki til Barnahúss eða Neyðarmóttökunnar, en Guðrún segir að hann sé samt sem áður allt of stór. „Þess vegna verðum við að vinna með hann.“  

Stígamót vilja bregðast við þessum vanda og hefur starfsfólk samtakanna boðað Barnahús, Umboðsmann barna, Barnaverndarstofu og Félag skólastjórnenda til fundar eftir páska þar sem þessi mál verða rædd. Meðal þess sem Stígamót leggja til er að koma á fót neyðarsíma fyrir börn sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi.

Samkvæmt lögum ber Stígamótum að tilkynna foreldrum barna undir 18 ára aldri ef um kynferðisbrot er að ræða. Jafnframt ber þeim skylda til að tilkynna málið til Barnaverndar.

„Ég fæ alltaf hnút í magann þegar unglingur hringir til okkar. En frekar en að svíkja þessi börn segjum við þeim að landslög gildi um alla. Okkur ber að tilkynna Barnaverndanefnd og foreldrum að þau hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Vinnan felst í að hvetja barnið til þess að við getum farið inn í kerfið, og það gengur oftast,“ segir Guðrún.

Ekki afsökun að mega ekki hjálpa börnunum

Með tilkomu neyðarsímans munu börn og unglingar, 18 ára og yngri, geta hringt nafnlaust og vonast Guðrún til þess að með samvinnu fagaðila og barnanna verði hægt að koma málum þeirra inn í kerfið, án þess að börnin upplifi hræðslu.

„Við ætlum að lækka þröskuldinn með því að nálgast börnin, sem geta hringt nafnlaust. Við gætum byrjað með tveimur tímum, þrisvar í viku, til dæmis,“ segir Guðrún.  

„Við getum ekki notað það sem afsökun að við megum ekki hjálpa þessum börnum. Skólinn vill ekki að börnin séu hjálparlaus og við ætlum að hjálpa þeim og ársskýrslan er dásamlegt verkfæri til breytinga.“

mbl.is