„Ég gerði ekkert rangt“

Maðurinn hefur birst í lífi Hrefnu með reglulegu millibili í …
Maðurinn hefur birst í lífi Hrefnu með reglulegu millibili í 15 ár. Á þessu tímabili hefur Hrefna búið í fimm bæjarfélögum en það hefur ekki stoppað manninn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í 15 ár hefur Hrefna I. Jónsdóttir þurft að glíma við mann sem hefur ofsótt hana með sms skilaboðum eftir að hún neitaði að eiga í samskiptum við hann. Þau kynntust fyrst fyrir 15 árum fyrir vestan þar sem Hrefna var búsett og hefur hann reglulega dúkkað upp í hennar lífi, hvort sem hún bjó á Akureyri, Selfossi eða í Reykjavík. Þegar maðurinn hótaði að birta myndband af samförum þeirra leitaði Hrefna leiða til að losna við manninn. Það tókst með herkjum en hún getur aldrei verið viss um að hann muni ekki hafa samband við hana aftur.

Hrefna hélt að hún væri ein í þessari stöðu, en þegar hún sá stöðuuppfærslu á Facebook í vikunni frá Benedikt Guðmundssyni, sem varar við manninum þar sem hann hafi ofsótt fyrrverandi eiginkonu sína, ákvað Hrefna að stíga fram og segja sína sögu. Hrefna er ekki sú eina sem hafði samband við Benedikt, en tugir kvenna hafa svipaða sögu að segja af þessum manni. 

Sjá frétt mbl.is: „Flest­ar ótt­ast hann enn“

„Upphaf samskipta okkar áttu sér stað fyrir vestan þar sem ég bjó. Starf hans fólst meðal annars í því að gera við raftæki og hann kemur vestur á firði þar sem ég bjó þegar ég var 14 ára, árið 2001,“ segir Hrefna, sem fór með sjónvarp í viðgerð til mannsins. „Svo líða einhverjir dagar og ég fæ sms frá honum mjög seint um kvöld þar sem hann segir mér að sjónvarpið sé tilbúið og hvort ég vilji ekki kíkja yfir til hans. Mér fannst óþægilegt að fara til á þessum tíma sólarhrings og sagði því við hann að ég væri farin að sofa og myndi kíkja á hann daginn eftir, sem ég gerði.“

Fékk greitt fyrir falska nektarmynd

Hún lýsir manninum sem „kammó“ og að hann hafi tekið virkan þátt í ýmsum skemmtunum og viðburðum í bæjarfélaginu, sumarið sem hann bjó þar. „Fólk kunni vel við hann og hann kom vel fyrir sjónir.“

Hrefna flutti norður á Akureyri ári síðar þar sem hún gekk í framhaldsskóla. „Mjög snemma á önninni fer ég að fá sms frá strák sem vildi lítið gefa upp um hver hann væri, en hann sagðist hafa séð mig á djamminu og að ég væri sæt og áhugaverð manneskja.“ Samskipti þeirra héldu áfram yfir veturinn. „Hann bað um að sjá mynd af mér og ég benti honum á að ég væri með Myspace. Ég var orðin pínu óþreyjufull og forvitin að vita hver þetta væri. Ég hélt á þessum tíma, þegar ég var 16 ára, að besta leiðin til að láta hlutina ganga hraðar væri að gefa honum undir fótinn. Hann bað svo um klúra mynd af mér eða nektarmynd sem ég tók illa í. Við vorum búin að spjalla um daginn og veginn og hann vissi margt um mig, meðal annars að ég átti í fjárhagserfiðleikum.“

Hrefna vildi hins vegar ekki leita til fjölskyldu sinnar eftir aðstoð. „Baklandið mitt á þessum tíma var ekki það sterkasta en þegar hann segist vera tilbúinn til að launa mér fyrir að senda myndina fatta ég að þá muni ég sjá kennitölu og nafn og myndi þannig komast að því hver hann væri. Með smá rannsóknarvinnu á netinu fann ég rosalega „plain“ píkumynd sem ég sendi honum. Og það var varla liðinn hálftími þar til ég fékk 25.000 krónur inn á reikninginn minn.“

Hrefna kannaðist ekki við nafnið, en henni brá þegar hún sá kennitöluna, en maðurinn er 35 árum eldri en hún. Eftir frekari leit á netinu fann Hrefna mynd af manninum og kannðist þá við hann að vestan. „Á þessum tíma er ég rosalega einangruð og með brotna sjálfsmynd. Mér fór því að þykja vænt um þau samskipti sem við áttum á þessum tíma. Hann hefur áttað sig á því, hann fór að segja réttu hlutina við mig á réttum tíma og við urðum góðir trúnaðarvinir. Ég ákvað því að gefa honum séns. Hann var ekki ógnandi þó hann kunni að þrýsta eftir því sem hann vildi á kurteisan hátt.“

Þegar Hrefna stundaði nám á Akureyri hafði maðurinn samband við …
Þegar Hrefna stundaði nám á Akureyri hafði maðurinn samband við hana og þrýsti á hana að senda sér nektarmynd. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kynntist hans réttu hlið 

Hrefna flutti stuttu seinna á Selfoss og á svipuðum tíma flutti maðurinn í Mosfellsbæ. „Hann var ekki lengi að komast að því og fer að ýta undir hvort mig langi ekki til að hitta hann. Ég melti það í einhvern tíma og læt verða af því að hitta hann og við sofum saman í tvö skipti. En ég fann það strax á samskiptunum sem við áttum eftir að hafa sofið saman að ég var ekki alveg til í þetta. Þá fékk ég að kynnast réttu hliðinni sem hann býr yfir. Hann trompaðist og varð mjög sár og reiður.“

Maðurinn brást við með því að senda Hrefnu skjáskot af myndbandi sem sýnir þau hafa samfarir. „Honum hafði tekist að fela myndabandsupptökuvél í íbúðinni sinni. Hann lagði svo spilin á borðið og sagði að hann þekkti vini mína og fjölskyldu og spurði mig hvort ég væri virkilega til í að slíta samskiptum við hann og fá hann á móti mér.“

Maðurinn hélt áfram að senda Hrefnu ótal smáskilaboð og hún var farin að óttast að myndir og myndbönd af sambandi hennar við manninn færu að birtast á netinu. „Ég hélt honum góðum með því að bakka út úr því að slíta sambandi við hann og hitti hann í nokkur skipti með reglulegu millibili.“

Stofnaði aðgang á einkamál.is í hennar nafni

Hrefna flutti frá Selfossi til Keflavíkur og þaðan aftur vestur. „Þá fékk ég pínu pásu frá honum þar sem hann var búsettur í bænum. En hann vissi alltaf hvar ég bjó.“ Hrefna flutti síðan til Reykjavíkur. Maðurinn var ekki lengi að komast að því og setti sig fljótlega í samband við hana. „Hann sagði mér að það væri gott skref fyrir mig að flytja í bæinn því hann væri búinn að finna leið til að hjálpa mér. Hann segir mér að hann sé búinn að stofna aðgang að einkamál.is þar sem hann þóttist vera ég og það væru nú þegar 10-15 karlmenn sem væru tilbúnir til að kaupa mig.“ Maðurinn var einnig búinn að útbúa verðskrá fyrir þá þjónustu sem Hrefna átti að bjóða upp á.

„Ég fer í panikk og neita og þá sýnir hann aftur sínar verstu hliðar og spyr mig hvort ég vilji virkilega fá hann upp á móti sér. Ég náði að kaupa mér tíma en hann fór að þrýsta á mig. Einn daginn tók ég ákvörðun um að segja nei. Þá fékk ég hótanir frá honum þar sem hann segist ætla að eyðileggja líf mitt.“

Á þessu tímabili var Hrefna mjög hrædd og gisti heima hjá vinkonu sinni þar sem hún þorði ekki að sofa heima hjá sér. Hún velti fyrir sér hvert hún gæti leitað. „Þetta var á þeim tíma sem Kompás þættirnir voru í sýningu og mér datt í hug að hafa samband við Jóhannes Kr. Kristjánsson, þáttastjórnanda.“ Hrefna fékk fljótlega samband við Jóhannes og sagði honum sína sögu. „Honum var mjög brugðið og kom mér í samband við rannsóknarlögregluna og Kvennaathvarfið. Hann var stoð mín og stytta í lífinu í nokkrar vikur og taldi mér trú um að ég gæti sigrast á þessum manni.“

Maðurinn stofnaði aðgang á einkamál.is í nafni Hrefnu þar sem …
Maðurinn stofnaði aðgang á einkamál.is í nafni Hrefnu þar sem hann ætlaði að láta hana selja sig öðrum mönnum. Þannig átti hún að leysa fjárhagsvanda sinn. mbl.is/ Árni Sæberg

Lítil aðstoð í kerfinu 

Hrefna sagði rannsóknarlögreglunni alla söguna en fékk þær upplýsingar að erfitt yrði að koma málinu í gegnum kerfið. „Maðurinn var með óskráð númer og með lögheimili erlendis þannig ég hafði engin haldbær sönnunargögn. Lögreglan tjáði mér að ég gæti kært en málið yrði líklega fellt niður. Lögreglumaðurinn hvatti mig samt alls ekki til að hætta við að kæra en sagði að ég myndi líklega ekki græða neitt á því.“ Lögreglan hafði samt sem áður samband við manninn og veitti honum viðvörun. „Hann bakkaði þá í burtu og lét mig í friði í einhvern tíma. Þarna var þungu fargi af mér létt og fékk tíma til að vinna úr þessu máli og sjálfri mér.“

Tæpum fjórum árum síðar var Hrefna á góðum stað í lífinu, hafði verið í sambandi í þrjú ár og var farin að skipuleggja brúðkaup ásamt unnusta sínum. „Einhvern veginn fréttir maðurinn af brúðkaupinu og hefur samband við tilvonandi eiginmann minn. En hann vissi mína sögu, en hann sagði honum að hypja sig og svo heyrði ég ekkert í honum fyrr en stuttu eftir að ég skil við manninn minn.“

Maðurinn var þá búsettur í Kanada og vildi bjóða Hrefnu að búa með sér þar. „Hann sagðist elska mig og að hann sæi eftir öllu saman. Ég náði að afþakka pent og hef ekki heyrt í honum síðar, svo ég viti. Ég fékk reyndar send skilaboð úr norsku númeri fyrir þremur árum síðan en ég er ekki viss hvort þetta hafi verið hann.“

Á alltaf von á að hann birtist aftur 

Hrefna hefur því ekki heyrt í manninum í þrjú ár en veit að hún getur átt von á að hann muni birtast í hennar lífi þegar hún á síst von á því. Þegar hún sá stöðuuppfærslu Benedikts áttaði hún sig á því að það skiptir hana máli að sannleikurinn komi fram. Hrefna tók einnig eftir frásögn Fanneyjar Bjarkar Ingólfsdóttur, sem hún birti á Facebook, og sá þar sláandi líkingar við hennar eigin sögu.

„Ætli mín saga muni mögulega hvetja aðrar konur sem eru í ennþá verri stöðu gagnvart þessum manni að koma fram?“ Hrefna vonar það svo sannarlega, en tugir kvenna settu sig í samband við Benedikt eftir að hann birti sína frásögn á Facebook og spanna sögurnar nær 40 ára tímabil.

„Á meðan þessu stendur finnst manni maður vera einn í þessu, en svo er sláandi að sjá að við erum miklu fleiri. Þetta er svo miklu meira en andlegar hótanir, hann er að ganga miklu lengra.“

Hrefna hefur unnið úr sínum málum og hræðist manninn ekki í dag. „Hann vinnur ef hann hefur tök á mér. En það kostaði mig mikla vinnu og baráttu en hann hefur ekki tök á mér lengur. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvers konar maður hann er. Ég tók þá ákvörðun að treysta honum og sofa hjá honum, eldri manni, sem ég sé kannski eftir en ég veit að ég gerði ekkert rangt.“

Hrefna er nú búsett í Reykjavík og hefur ekki heyrt …
Hrefna er nú búsett í Reykjavík og hefur ekki heyrt í manninum í þrjú ár. Hún hræðist hann ekki í dag en veit að hún getur alltaf átt von á að hann muni hafa samband á ný. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is