Fjórir hænuungar sem klekktust í heiminn fyrir viku síðan á bóndabæ í Svíþjóð eignuðust óvænta móður.
Ingela Ljung, bóndi í Strömstad í vesturhluta Svíþjóðar, ætlaði ungunum hlutverk í árlegri páskaheimsókn skólabarna á bóndabæinn, en ungarnir komu hins vegar í heiminn degi eftir heimsóknina.
Ungarnir tóku ástfóstri við Elsu, læðunni á bænum, sem hefur endurgoldið þeim ástina.
„Ég hélt fyrst að hún ætlaði að éta þá, þeir eru matur fyrir henni,“ sagði Ljung í samtali við The Local í vikunni. Hún leyfði læðunni hins vegar að nálgast unganna. Elsa tók þá upp, einn af öðrum, og kom þeim fyrir í sófanum þar sem hún þreif þá hátt og lágt.
Ljung er ekki alveg viss um hvað gerist næst, en hún er hrædd um að Elsa bregðist illa við ef ungarnir verða teknir af henni. „Hún er algjörlega sannfærð um að þetta sé kettlingarnir hennar. Það er svo sætt að fylgjast með henni að ég tárast, en þetta er samt sem áður skrýtið,“ segir Ljung.