Vonast er til að einstök ástarsaga króatísks pars eigi eftir að draga fleiri ferðamenn til landsins. Karlinn fer ávallt til heitari landa yfir veturinn þar sem maki hans, sem bíður hans heima, er fatlaður og getur ekki flogið.
Þetta storkapar hefur fangað hug og hjörtu margra árum saman enda hefur samband fuglanna varað árum saman. Kvenfuglinn er vængbrotinn og getur ekki farið til vetrarstöðvanna sem eru í 13 þúsund kílómetra fjarlægð í Suður-Afríku. En þó að þeir séu aðskildir allan veturinn er taugin á milli þeirra augljóslega mjög sterk.
Karlfuglinn er kallaður Klepetan af heimamönnum. Kvenfuglinn heitir Malena og fyrir nokkrum dögum voru þau sameinuð á ný, eftir marga mánuði í sundur.
Til að vekja athygli á ástarsögunni fögru, með þá von að fleiri ferðamenn eigi eftir að koma til Króatíu, hefur ferðamannaráð þar í landi búið til myndskeið um fuglana fögru.
„Ég vissi að hann myndi koma aftur, hann bregst henni Malenu aldrei,“ segir Stjepan Vokic, sem fylgist með Malenu í fjarvegu Klepetan. „Þó að aðrir karlfuglar reyni að troða sér í hreiðrið til hennar rekur hún þá alltaf í burtu. Hún bíður eftir honum Klepetan og fagnar honum svo vel þegar hann kemur.“
Vokic er kennari á eftirlaunum. Hann hefur hugsað um Malenu í meira en tvo áratugi eða allt frá því að veiðimenn brutu væng hennar.
Storkaparið hefur eignast unga á hverju ári og það er pabbinn sem kennir þeim að fljúga. Ungarnir fljúga svo einnig til Suður-Afríku þegar hausta tekur. Á meðan bíður Malena róleg í Króatíu eftir að ást lífs hennar snúi aftur.