Kemur sex árum of seint í hjónabandsráðgjöf

Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni segir að pör gefi sér ekki nægilegan tíma í að tala saman og þess vegna hökti oft í stoðum sambandsins. Ég hitti hann og spurði hann spjörunum úr en á næstunni mun Valdimar leitast við að svara spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu um sambönd og samskipti. 

Ég byrjaði á því að spyrja hann hvað það væri sem væri helst að hjá fólki í samböndum sem gerði það að verkum að það væri ekki ánægt. 

„Pör gefa sér ekki nægan tíma til að tala saman, eiga tíma saman og byggja upp sambandið. Fólk er á miklum snúningi við að sinna því sem sinna þarf eins og vinnu, áhugamálum, ræktinni og vinum og þetta verður oft á kostnað sambandsins. Það má segja að við uppskerum eins og við sáum hvað þetta varðar og því mikilvægt að bera virðingu fyrir sambandinu sem slíku, gefa því tíma og hlúa að því,“ segir Valdimar. 

Þegar ég spyr hann hvort fólk sé nægilega duglegt að leita sér hjálpar þegar vandamálin banka upp á segir hann að fólk komi yfirleitt allt of seint í ráðgjöf. 

„Rannsóknir í BNA sýna að fólk kemur að meðaltali í ráðgjöf sex árum of seint. Þá er brotfall úr ráðgjöf í kringum 62%, það er að segja 62% mæta ekki í þriðja tímann. Þetta er ákveðin vísbending og ljóst að sambönd og hjónabönd enda oft án þess að leitað hafi verið eftir aðstoð og því miður enda þau oft í miklum sársauka fyrir alla aðila málsins,“ segir hann. 

Hann segir að fólk óttist að ráðgjöf sé svo óþægileg og þess vegna komi það síður eða allt of seint. 

„Ég tel að oftast sé það vegna ótta við að ráðgjöfin gæti verið óþægileg því mörgum þykir erfitt að tjá sig. Þá eru örugglega einhverjir sem telja sig ekki hafa ráð á aðstoð og stundum er þetta einfaldlega framtaksleysi. Tíminn er af skornum skammti og við frestum þessu eins og svo mörgu öðru sem við ættum alls ekki að fresta,“ segir Valdimar.

Það virðist vera allt of algengt að hjón láti hjónabandið sitja á hakanum þegar kemur að samveru. Vinna, frístundir og barnauppeldi eiga það til að vera í forgangi hjá allt of mörgum. Hvers vegna lendir fólk í þessum hjólförum?

„Manneskjan festist mjög gjarnan í vana. Við gerum sömu hlutina flest alla daga, förum í gegnum ákveðna rútínu alveg frá því að við vöknum og þar til við förum að sofa. Fyrir marga er það stórt verkefni að fara ekki alltaf í sama skápinn í sundlauginni eða heilsurækt, að breyta um morgunmat getur reynt á og svo framvegis. Það er hluti af ástæðunni. Svo er því ekki að leyna að við erum að leggja mikið á okkur til þess að öðlast veraldleg gæði og sjá fjölskyldunni farborða og festumst jafnvel í þeirri leit. Það er mikilvægt að sinna uppeldinu vel en allt eru þetta hlutir sem geta farið í vana þar sem ekki er gert ráð fyrir tíma fyrir okkur sjálf eða sambandið sem við erum í. Því er hinsvegar hægt að breyta með ýmsum ráðum.“

Hvað mælir þú með því að pör/hjón geri á hverjum degi til þess að vinna í sambandinu án þess að það kosti mikla vinnu né peninga?

„Það er mikilvægt eins og áður hefur komið fram að við gefum sambandinu tíma. Það er ekki síður mikilvægt að við gefum hvort öðru tíma fyrir okkur sjálf. Það er nauðsynlegt að eiga stundir saman það sem hægt er að ræða málin af yfirvegun án truflunar frá símum, vinnu, börnum eða hverju sem er. Að hlusta á makann sinn er gulls ígildi en það reynist mörgum erfitt þar sem við erum gjörn á að reyna að koma okkar eigin sjónarmiðum að eða leitumst stöðugt eftir því að „hjálpa“ eða breyta makanum okkar. Að hlusta af athygli er ókeypis og gefur mikið. Það að skipuleggja fund á kaffihúsi, fara saman í sund eða jafnvel bara gönguferð er frábær tími með makanum. Kertaljós og tebolli með þægilega tónlist að kvöldi til, geta verið dásamlegar stundir sem kosta ekki neitt.“

Nú hefur þú mikla reynslu af ráðgjöf fyrir fólk í parasambandi og þá vakna spurningar hvort hægt sé að hjálpa öllum. Er hægt að hjálpa öllum?

„Já, ég myndi segja að það sé alltaf af hinu góða að leita sér hjálpar ef fólki er farið að líða illa. Það er reyndar sérstaklega aðdáunarvert þegar fólk leitar sér stuðnings þrátt fyrir að allt líti vel út, þó ekki sé nema til þess að vera vel undirbúin fyrir nána skuldbindingu. Lykilatriði er þó að fólk vilji aðstoð, það verður litlu komið til leiðar til þeirra sem eru neyddir til þess að leita sér hjálpar. Í sumum tilvikum er niðurstaðan sú að samböndum verði ekki bjargað og það er ekki síður mikilvægt að fá aðstoð við að skilja þá við hlutina þannig að sem minnstu sársauki og skaði verði af.“

Valdimar er ekki bara með ráðgjöf fyrir fólk sem á í hjónabands-eða sambandserfiðleikum. Hann hjálpar fólki að vinna með meðvirkni þaning að því líði betur. 

„Meðvirkni mótast fyrst og fremst á meðan við erum börn. Við erum afar móttækileg fyrir ytri aðstæðum þegar við erum börn og öll viðvarandi vanvirkni í uppeldinu leiðir til meðvirkni. Vanvirkar uppeldisaðferðir eru í raun allar aðferðir sem ekki geta talist nærandi og jákvæðar fyrir börn. Því vanvirkari sem aðstæðurnar eru, því hraðar mótast meðvirknin og getur komið fram hjá mjög ungum börnum. Þegar skortur er á að grunneiginleikum okkar sem barna, sé sinnt á nærandi hátt þá förum við að aðlagast þeim aðstæðum sem leiðir til þess að við aftengjumst okkar reynverulega sjálfi, hættum í raun að vera við sjálf og erum orðin meðvirk. Við þróum með okkur hegðun, viðbrögð og viðhorf sem valda okkur vandræðum í lífinu, bæði í tengslum við okkar eigin upplifun af okkur sjálfum og í öllum samskiptum við annað fólk. Til þess að vinna á meðvirkni er mikilvægt að kynna sér hvað meðvirkni er, þekkja grunninn, sjá hvar meðvirknin varð til hjá okkur, hvernig hún birtist í dag og styrkja ný viðbrögð samhliða því að styrkja okkar eigin sjálfsvirðingu.“

Nú eru blandaðar fjölskyldur mjög algengar á Íslandi og margir virðast vera í miklu barsli með að láta allt hanga saman. Ertu með eitthvað einfalt ráð fyrir fólk sem vill vanda sig þegar kemur að samsettum fjölskyldum?

„Fjölskylduformið hefur breyst gríðarlega á skömmum tíma og við erum öll að læra nýjar aðferðir til þess að láta það ganga sem best. Eitt af því sem ég tel mikilvægast að hafa í huga eru væntingarnar og kröfurnar sem okkur hættir til að hafa. Eitt af þessum atriðum er að stjúpfjölskyldur reyna gjarnan að vera kjarnafjölskyldur en eru það ekki. Það getur verið ákveðinn léttir að sætta sig við það og vinna málin úr frá réttum forsendum. Eins er algengt að við höfum væntingar eða gerum kröfur til maka okkar um að sinna okkar eigin börnum sem þau væru þeirra eigin og höfum jafnvel óraunhæfar væntingar um tilfinnigar þeirra í garð barna sem við eigum úr fyrra sambandi. Þetta veldur oft mikilli togstreytu og særindum. Hvað þetta varðar er ráðgjöfin mjög gagnleg því það er einfaldlega talsvert verkefni að stofna til nýrrar fjölskyldu þar sem aðilar hafa átt í fyrri samböndum og eiga börn með öðrum aðilum. Með því að sjá hlutina í réttu ljósi, sleppa tökunum þar sem við á, geta verið sveigjanlegur og gera ekki óeðlilegar kröfur til sjálf síns og annarra, þá er hægt að komast hjá erfiðleikum sem annars koma upp.“

En svona að lokum. Hvað gerir þú á hverjum degi sem gerir þig hamingjusaman?

„Mín reynsla er sú að ef ég hef ákveðna einfalda huti í lagi þá líður mér nokkuð vel. Þetta eru ekki ný vísindi né galdraþulur. Ég hugleiði svo til alla morgna, legg mig fram við að borða hollt, hreyfi mig reglulega og forðast of mikla streytu. Þegar mér tekst þetta þá er ég hamingjusamur sem skilar sér í samskiptum mínum við fjölskylduna og annað fólk. Ég hef það líka fyrir venju að prófa nýja hluti, gera ekki alltaf það sama og þegar hugurinn segir „nei ég nenni ekki“ eða „ég þori ekki“ þá er það yfirleitt merki um að ég eigi einmitt að fara af stað.“

Ef þér liggur eitthvað á hjarta varðandi hjónaband þitt eða ástarsamband getur þú sent Valdimar spurningu HÉR. 

Valdimar Svavarsson.
Valdimar Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is