Um verslunarmannahelgina 2014 var Pálínu Ósk Ómarsdóttur nauðgað. Hún fór til Akureyrar með vinkonum sínum og þær ætluðu að skemmta sér vel þessa helgi. Aðfaranótt laugardagsins fara þær í eftirpartí í hús í bænum með fleira fólki. Pálína er orðin mjög drukkin og er hjálpað af ókunnugum manni inn í eitt herbergi í húsinu þar sem hún leggst í rúm og sofnar áfengisdauða, alklædd. Síðar rumskar hún við að það er maður hjá henni í rúminu en hún er of drukkin til að átta sig á aðstæðum eða til að geta gert neitt.
Hún man næst eftir sér nakinni og ringlaðri inni á klósetti í húsinu. Hún fer inn í herbergið þar sem hún svaf og sér þá karlmann í rúminu og föt sín á gólfinu. Hún veit ekki hvað hefur gerst en klæðir sig í flýti og fer á gististað sinn. Eina sem hún hugsar um er að komast í sturtu því henni leið mjög illa, fannst hún ógeðsleg og var í hálfgerðu áfalli. Hún finnur líka fyrir sársauka sem bendir til þess að við hana hafi verið hafðar þvingaðar samfarir. Hún hringir í móður sína sem ráðleggur henni að taka fötin sem hún var í um nóttina saman í poka og halda upp á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri. Hún gengur þar að móttökuborðinu og segist halda að hún hafi verið misnotuð, strax er sett af stað ferli sem Pálína er mjög ánægð með og er forsenda þess að hún gat kært manninn sem var dæmdur nýlega í Héraðsdómi Reykjaness sekur um nauðgun.
„Ég fékk alla aðstoð strax. Á sjúkrahúsinu fór hjúkrunarfræðingur með mig í kapelluna og talaði þar rólega við mig og útskýrði hvað myndi gerast í kjölfarið. Ég er skoðuð og það eru teknar blóð- og þvagprufur og þau hafa samband við lögregluna sem kemur nánast strax. Ég ræði við lögregluna sem gerir mér grein fyrir því að það sem ég lenti í hafi ekki verið í lagi, maðurinn hafi misnotað sér ástand mitt,“ segir Pálína. En eins og algengt er með fórnalömb nauðgana hélt hún fyrst að þetta hefði einhvernveginn verið sér að kenna.
„Ég áttaði mig strax á því að þetta var ekki eðlilegt, þetta var ekki með mínu leyfi því ég hefði aldrei getað gefið leyfið. Ég fór samt að hugsa hvort ég hefði ýtt undir eitthvað, átt þátt í þessu á einhvern hátt, t.d. talað við hann á barnum eða sagt eitthvað sem gæfi í skyn að ég hefði viljað sofa hjá honum. Mér fannst það samt ólíklegt því eins full og ég var hefði ég ekki haft rænu á að reyna við neinn og svo er hann miklu eldri en ég og alls ekki sú manngerð sem ég hefði reynt við,“ segir Pálína.
Eftir samtal Pálínu við lögregluna fer strax ákveðið ferli af stað. Lögreglan fer og tekur skýrslu af öllum sem voru í eftirpartíinu og rannsakar húsið þar sem brotið átti sér stað, það er allt gert á meðan Pálína er enn á sjúkrahúsinu. Í beinu framhaldi er gerð leit að manninum í bænum og hann handtekinn, innan við hálfum sólarhring frá því nauðgunin átti sér stað.
„Lögreglan á Akureyri stóð sig mjög vel. Það skiptir miklu máli að þetta sé gert strax. Öll vitni voru yfirheyrð strax og framburði þeirra bar saman. Mér var síðan útvegaður lögfræðingur og fór í formlega skýrslutöku á sunnudeginum. Þá var ég spurð hvort ég vildi kæra. Ég var óviss og þurfti að hugsa málið vel því ég var drulluhrædd um að maðurinn myndi hafa samband við mig. En eftir að lögfræðingurinn fór vel yfir þetta með mér ákvað ég að leggja fram kæru.“
Pálína hafði aldrei hitt manninn sem nauðgaði henni áður, eina skiptið sem hún man eftir að hafa séð hann var þetta augnablik þegar hún sá hann í rúminu eftir nauðgunina.
„Hann var með strákunum sem við fórum með í eftirpartíið. Ég man ekkert en var sagt að við hefðum talað lítillega saman í partíinu. Hann hefur alveg séð hvað ég var ölvuð en allir sem voru í partíinu segja að ég hafi verið ofurölvi. Það var víst hann sem kemur mér inn í rúmið þegar ég drepst áfengisdauða og leggur mig upp í það í öllum fötunum. Hann fer síðan aftur í partíið en þegar það róast fer hann inn í herbergi til mín, klæðir mig úr og nauðgar mér. Hann nefnir það við strákana í partíinu að hann ætli að athuga hvort ég muni ýta honum af og það er enginn sem stoppar hann þrátt fyrir að vita ástandið á mér. Það er ekki í lagi og það á enginn að misnota sér þessar aðstæður.
Ábyrgðin er á mér að hafa orðið svona full en það þýðir ekki að það megi nauðga mér. Maður misnotar ekki meðvitundarlausa manneskju,“ segir Pálína sem getur rætt þetta mál af mikilli yfirvegun.
Hún segist hafa fyrst áttað sig almennilega á því að um nauðgun hafi verið að ræða þegar henni er sagt síðar að hann hafi sagst ætla að athuga hvort hún myndi ýta honum af. „Þá fékk ég skell framan í mig og áttaði mig almennilega á því að þetta var ekki mér að kenna. Ég hefði ekki fengið að vita það nema út af því að ég kærði og ef ég hefði ekki gert það væri ég enn í dag að velta mér upp úr þessu. Hann viðurkennir vitanlega ekki að hafa nauðgað mér, en miðað við allt hefði hann átt að vita að ég var í annarlegu ástandi,“ segir Pálína.
Dæmt var í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness nýverið, einu og hálfu ári eftir að atburðurinn átti sér stað og kæran var lögð fram. Maðurinn var fundinn sekur um nauðgun, hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að greiða 1 milljón króna í skaðabætur. Dómnum var áfrýjað og nú tekur við önnur löng bið hjá Pálínu.
„Þetta ferli er búið að taka mjög langan tíma. Ég veit ekki hvenær málið verður tekið fyrir í Hæstarétti en það má búast við að það taki heillangan tíma. Ég bind vonir við að lokaniðurstaðan verði svipuð og í héraðsdómi. Svona menn eiga ekki að ganga um eins og þeir hafi ekki gert neitt. Bara með því að kæra sýndi ég að það sem hann gerði er ekki í lagi. Ég gat ekki varið mig þegar atburðurinn átti sér stað en með því að kæra gat ég staðið með sjálfri mér. Hver kæra skiptir líka málið því hún styrkir næsta mál ef hann gerir svona aftur við aðra manneskju. Þetta er búið að vera ömurlegt ferli, mjög þreytandi og andlega erfitt en á endanum færðu alltaf einhverskonar réttlæti, hvort sem hann er dæmdur eða ekki.“
Pálína ákvað frá upphafi að tala opinskátt um nauðgunina og málaferlin. „Það á að tala um þetta, það þarf að tala um þetta og það hefur hjálpað mér mjög mikið að tala um þetta. Fórnarlambið á ekki að burðast með skömmina. Mér finnst mikilvægt að stíga fram og vekja athygli á því hvað það skiptir miklu máli að kæra, sama hvað kemur út úr því. Stelpur kenna sér oft um það sem gerist en það er sama hvernig þú varst eða hvað þú gerðir, það eru þessir menn sem taka þessa ákvörðun fyrir þig. Hann sviptir mig mínu réttlæti og minni virðingu. Hann nauðgaði mér ekki bara heldur tók líka af mér hlut sem ég fæ aldrei aftur.“