Svona getur ástarfíkn lýst sér

Valdimar Þór skrifar um ástarfikn í sinn nýjasta pistil.
Valdimar Þór skrifar um ástarfikn í sinn nýjasta pistil. Getty Images

„Ég hef ítrekað heyrt frásagnir fólks sem er í vandræðum í samskiptum við makann sinn og lýsingin er gjarnan á þá leið að makinn hafi umbreyst frá því að vera hinn fullkomni maður eða kona yfir í að verða fjarlægur, tilfinningalega lokaður og í sumum tilvikum kominn á kaf í allskyns stjórnleysi og jafnvel óheiðarleika,“ skrifar Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni-fjölskyldumiðstöð, í sinn nýjasta pistil.

„Ég skil bara ekki hvernig hann getur breyst svona mikið, frá því að vera eins og draumaprins á hvítum hesti yfir í drullusokk sem kemur fram við mig eins og ég sé ekki til!“

„Þessi lýsing á ágætlega við um upplifun sumra á breyttri hegðun makans sem þeir þráðu svo mjög í upphafi. Þegar vel er að gáð má oft sjá ákveðna hringrás sem kemur þessu af stað og „fórnarlömbin“ eru þar stór hluti af ferlinu. Þessir aðilar upplifa jafnvel aftur og aftur að fara í samband við svipaða einstaklinga sem virðast alltaf enda á þessari hegðun. Þessir aðilar upplifa líka reglulega það sem við köllum „haltu mér, slepptu mér“ sambönd, þar sem vanlíðanin og óhamingjan verður mikil í sambandinu en enn óþægilegra verður þegar sambandinu virðist ætla að ljúka. Margir velta því fyrir sér hvernig standi á því að aðili sem varla er búinn að ná sér eftir samband við ofbeldismann, fer beint í næsta samband með öðrum ofbeldismanni.“

„Þessi hringrás hefur með hugtak að gera sem kallast ástarfíkn (e. love addiction).“

„Fíkn getum við á sem einfaldastan hátt sagt að snúist um að hafa óstjórnlega löngun í eitthvað, sem okkur langar í. Þegar um ástarfíkla er að ræða þá er löngunin til að upplifa ákveðnar tilfinningar sem þeir upplifa sem ást, svo mikil að hún verður stjórnlaus. Rótin að því er nánast alltaf skortur á sjálfsvirðingu, það er að segja að viðkomandi upplifir ekki sitt eigið verðmæti og fer því að sækjast eftir því utan frá. Við þekkjum öll að láta okkur dreyma um ákveðna hluti sem okkur langar í og það á líka við um hinn fullkomna maka. Fjölmargt í menningunni ýtir undir það að við séum fyrst heil ef við bara finnum rétta makann. Ýmis ástarljóð, hetjur bókmenntanna, glæsilegu bjargvættirnir í kvikmyndunum eru góð dæmi um slíkt. Ódauðleg sena í kvikmyndinni Jerry Maguire þar sem Tom Cruse segir „You.. complete me“ við Renee Zellweger er gott dæmi um þetta. Ástarfíkill leitar í þessar fantasíur og þráir að draumaprinsinn komi og bjargi sér einn daginn, verndi sig frá heiminum og fullnægji sér tilfinningalega, þar með talið að fylla upp í sjálfsvirðinguna sem upp á vantar. Það snýst um að ná í þessa ytri virðingu af því „makinn minn er svo fullkominn“ og á þann hátt reyna að fylla upp í sársaukann sem skapast við að vera ekki sjálf með heilbrigða sjálfsvirðingu. Vandinn er hinsvegar sá að ástarfíkillinn sér í raun aldrei makann sinn í réttu ljósi því hann reynir að fella hann að fantasíunni og afneitar raunveruleikanum sem felur í sér að enginn er fullkominn og allir hafa sína veikleika, sem og styrkleika,“ skrifar Valdimar meðal annars.

„Þegar samband þessara aðila byrjar er því gjarnan lýst sem „ást við fyrstu sýn“ af því báðir finna mikið til sín og líður eins og hin fullkomni aðili sé nú loks fundinn, makinn sem mun gera þá heila. Vandinn er hins vegar sá að vegna þess að sjálfsvirðing verður ekki fyllt utan frá, þá verður ástarfíkillinn að heyra það, helst á hverjum degi að hann sé elskaður og upplifa tilfinningarnar sem hann leitar eftir. Það hinsvegar er ekki það sem aðilinn sem forðast tilfinningar er að leitast eftir og því fer hann að hörfa lengra og lengra í burtu, lokast enn meira tilfinningalega og finnst hann vera að kafna í sambandinu. Þessi hringrás heldur áfram í réttu hlutfalli við það hve mikið ástarfíkill leggur sig fram við að sækja tilfinningar, þá færir hinn aðilinn sig fjær þeim. Úr verður vítahringur sem oftast endar með miklum harmleik og sársauka fyrir báða aðila.“

Pistil Valdimars má lesa í heild sinni hér.

Valdimar Þór Svavarsson
Valdimar Þór Svavarsson Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is