Suður-Afríska ljónið Sylvester átti von á að verða lógað eftir að hann slapp í annað skiptið úr Karoo þjóðgarðinum. Hans bíða þó öllu skaplegri örlög en honum verður komið fyrir í öðrum garði ásamt tveimur ljónynjum. Vonast er til þess að hann komi á legg sinni eigin hjörð.
Sylvester slapp í annað sinn í lok mars, eins og sagt var frá á mbl.is. Hann var þó með hálsband sem gaf þjóðgarðsvörðum upp staðsetningu hans og nýttu þeir það til þess að elta hann langt upp í fjallshlíð, deyfa hann og færa aftur inn í þjóðgarðinn eftir fjóra daga á flótta.
Þjóðgarðsverðir í Karoo festu það á myndband þegar Sylvester var handsamaður og fluttur aftur á sinn stað. Hann sést í nærmynd eftir um 1:40 í myndbandinu.
Tilgátur eru um að Sylvester hafi yfirgefið þjóðgarðinn á flótta undan árásargjörnum eldri karldýrum. Því var ákveðið að koma honum fyrir í Addo fílaþjóðgarðinum þar sem hann verður ráðandi karldýrið. Vonast er til þess að hann uni sér betur í því hlutverki og komi á legg sinni eigin hjörð ásamt hinum ungu ljónynjum.