Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, um að ríkinu sé skylt að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli, hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar af innanríkisráðuneytinu. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Haft var eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, að hann vonaðist til þess að niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir sem fyrst.
Vísað var í dómi héraðsdóms í yfirlýsingu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, og Jóns Gnarr, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, um lokun brautarinnar. Segir í dómnum að þó ráðherra sé óheimilt að láta af hendi landsvæði í eigu ríkisins, eins og það sem Reykjavíkurflugvöllur er á og að Alþingi hafi almennar heimildir til að gefa ráðherra fyrirmæli um málefni flugvallarins, þá hafi ráðherra verið til þess bær að taka ákvörðun um breytingu vallarins samanber yfirlýsinguna.