Hvernig er best að komast yfir skilnað?

Valdimar Svavarsson.
Valdimar Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarvar spurningum lesenda. Hér fær Valdimar spurningu frá konu sem skildi nýlega við eiginmann sinn til þrjátíu ára um hvernig hún eigi að komast yfir skilnaðinn. 

Sæll Valdimar

Við hjónin skildum nýlega eftir þó nokkra vinnu í okkar sambandi. Það kom þó í ljós fljótlega eftir að hann flutti út að hann fór beint í samband við aðra konu sem ég reyndar vissi að hann hélt við á síðasta ári. Hann hefur alltaf, og gerir enn, haldið því fram að það samband hafi ekkert að segja og sé ekki neitt. Ég er þó nokkuð viss um að það hefur haft töluverð áhrif á hvernig okkur tókst ekki að vinna úr okkar málum á síðasta ári. Við erum búin að vera saman í tæp 30 ár og miklir vinir og samstíga í flestu. Þó voru komnir einhverjir brestir og mig grunar að hann hafi í raun verið búinn að finna fyrir ástarneistanum þegar það fór að gerast. Þá varð hið hversdagslega og venjubundna líf með mér allt í einu fremur grátt.

Mín spurning er s.s. sú hvort þú hafir einhver ráð fyrir mig til að komast vel í gegnum þetta. Ég hef notað æðruleysið mikið, sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Mér finnst samt erfiðast að hafa ekki samband við hann, vera ekki lengur vinur hans, en það höfum við verið meiri hluta ævinnar. Ég hef kosið að halda honum í fjarlægð, ekki vinur hans á fésinu og svo framvegis. Við eigum kurteis samskipt vegna praktískra mála og ekki annað. Hann er enn maðurinn í lífi mínu þó ég sé búin að sleppa honum, enda hann í öðru sambandi. Í höfðinu tala ég við hann á hverjum degi, um óhamingju hans, meðvirkni mína í að reyna að finna hamingjuna fyrir hann og svo framvegis. Ég er að reyna að horfa bara fram á við en sit samt svolítið föst í þessum hugsunum þannig að góð ráð eru vel þegin.

Kær kveðja, ein nýskilin

Góðan daginn og takk fyrir að senda mér fyrirspurn.

Það eru nokkur atriði sem koma upp í hugann við lesturinn og ég ætla að setja þær fram í nokkrum liðum.

  1. Það er mjög eðlilegt að þú upplifir sárar tilfinningar í tengslum við skilnaðinn, eftir tæplega 30 ára samband. Tilfinningar eins og sorg, söknuður, einmannaleiki, gremja, doði og jafnvel skömm og minnimáttarkennd geta allar komið upp við þessar aðstæður og fleirum mætti bæta við. Okkur Íslendingum er gjarnan uppálagt að vera ekki að flíka tilfinningum okkar og því reynum við oft að afneita þeim, sem getur þó leitt til þess að okkur líður enn verr. Það er mikilvægt að leyfa sér að upplifa tilfinningarnar, segja það sem manni finnst og hvað maður vill. Það er eitt fyrsta verkefnið þegar maður vill komast út úr klóm meðvirkninnar. Ég mæli með að þú leitir til skilningsríks aðila til þess að tjá þig um tilfinningar þínar og koma þeim í heilbrigðan farveg (ef þú ert ekki að því nú þegar). Þetta gæti verið góður vinur sem getur hlustað af athygli án þess að dæma, prestur eða ráðgjafi svo dæmi séu tekin. Maður ætti hinsvegar að forðast að nota börnin sín sem trúnaðarvin, ef um þau er að ræða.
  2. Ég skil að hann sé enn maðurinn í þínu lífi en nú hefur hann tekið ákvörðun og það besta sem þú getur gert er að gera það líka og fara að fókusera á þig. Það hefur auðvitað mikil áhrif á svona ferli ef ótrúnaður er til staðar og jafnvel búið að stofna til sambands utan hjónabands. Hvort sambandið sem hann valdi að fara í, skiptir hann einhverju máli eða ekki, er aukaatriði. Það ert þú sem skiptir máli. Það er ekkert eins niðurdrepandi og sársaukafullt við svona aðstæður heldur en að bíða og vonast eftir að aðrir geri eitthvað sem hefur áhrif á þitt líf. Þú ein getur tekið málin í þínar hendur, sett þér markmið og farið að fókusera á þá hluti sem skipta þig mestu máli. Hvaða áhugamálum gætir þú sinnt betur? Hvaða vini langar þig að hitta og gera eitthvað skemmtilegt með? Hvert hefur þig langað að ferðast? Hvaða bækur langar þig að lesa? Hvaða námskeið hefur þig langað að sitja? Hvaða listsköpun langar þig að sinna? Með því að fara að einblína á það sem gleður þig þá ferð þú hægt og sígandi að finna hamingju og gleði sem ekki er byggð á því hvaða ákvarðanir aðrir taka. Með því að byggja upp spennandi líf fyrir þig þar sem þú getur farið að hlakka til þess sem þú gerir, þá minnkar tíminn sem þú hefur í þráhyggjukenndar hugsanir og ímynduð samtöl um eitthvað sem ekki er.
  3. Ég er mjög ánægður að sjá hvaða hluti þú telur upp varðandi það að lágmarka ykkar samskipti, enda ljóst að öll samskipti við hann valda þér sársauka. Það er eitt af því sem mikilvægt er að gera í svona málum, þ.e. að lágmarka óþarfa samskipti, þannig að hægt sé að halda áfram með okkar eigið líf.

Vonandi er eitthvað í þessu sem getur stutt við þig. Svör mín byggja auðvitað á takmörkuðum upplýsingum og gætu hljómað svolítið ákveðin í einhverjum tilvikum. Mig varðar um að þér líði betur og vonandi eru þessar ábendingar eitthvað sem þú getur tekið og skoðað af yfirvegun, hvað passar fyrir þig og hvað ekki.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson

Ráðgjafi

valdimar@lausnin.is

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR

mbl.is