Tveimur kettlingum var á dögunum bjargað af heimili í Bretlandi en svo virðist sem litað hafi verið á þá með tússpennum. Kettlingarnir hafa verið nefndir eftir teiknimyndapersónunum Smurf (Strumpur) og Shrek og eru um fjögurra vikna gamlir. Lögregla flutti þá til dýraverndunarsamtakanna Bradford Cat Watch Rescue þar sem reynt var að ná litnum af.
Samtökin telja að það séu ekki börn sem beri ábyrgð á verknaðinum á kettlingunum heldur fullorðnir. Segja þau að málið sé „sláandi“ og ástand kettlingana sýni grimmdarlegan verknað.
Katie Lloyd starfsmaður BCWR segist óttast að kettlingarnir gætu innbyrt eitur með því að sleikja sig þar sem búið var að krota á þá. Búið er að fá dýralækni til þess að skoða kettlingana og eiturefnasérfræðinga til þess að meta hvað sé öruggt að nota til að fjarlægja blekið.
Að sögn lögreglu var engin læða á heimilinu þar sem kettlingarnir fundust en hún var kölluð á heimilið vegna fíkniefnabrota og ábendinga um að vanræktur hundur byggi þar.
Kettlingarnir eru nú í betra ástandi en þegar þeir komu og eru duglegir að drekka mjólk. „Þeir eru miklu hressari. Liturinn er að minnka og þeir eru duglegir að borða.“
Ekki stendur til að svö stöddu að reyna að finna nýtt heimili fyrir kettlingana vegna viðkvæms ástands þeirra.