Yfir 50 athugasemdir bárust þegar nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar var auglýst í byrjun mánaðarins. Þar er ekki gert ráð fyrir rekstri svonefndrar „neyðarbrautar“.
Fulltrúar meirihlutans samþykktu deiliskipulagið í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði og það verður lagt fyrir fund borgarstjórnar í dag.
Hafin var vinna við nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar í kjölfar samkomulags ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group sem undirritað var í október 2013. Samkomulagið fól meðal annars í sér að neyðarbrautin yrði lögð af. Það hefur ekki verið gert, eins og fram hefur komið í dómsmálum Reykjavíkurborgar á hendur ríkinu sem ekki hafa verið útkljáð.
Þegar deiliskipulagstillagan var auglýst bárust 52 athugasemdir við hana. Þær voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði 22. apríl síðastliðinn. Athugasemdirnar voru frá félögum, hagsmunaaðilum og áhugamönnum um flug, meðal annars frá samtökunum „Hjartað í Vatnsmýri“, mörgum sveitarfélögum og stofnunum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.