Myglusveppur í Nesskóla

Frá Neskaupstað
Frá Neskaupstað Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Jarðhæð í vesturálmu Nesskóla í Neskaupstað hefur verið lokað tímabundið vegna myglusveppa. Í kjölfarið verður ráðist í umfangsmiklar endurbætur á húsinu í annað sinn á tveimur árum. Þetta kemur fram á vef Fjarðarbyggðar.

Þar segir að árið 2014 hafi rannsóknir staðfest grun um myglu á jarðhæðinni. Í kjölfarið voru gluggar m.a. endurnýjaðir á suðurvegg álmunnar, veggurinn hreinsaður að innan og klæddur, og skipt var um gólfefni. Vitnað er í Gunnar Jónsson, staðgengil bæjarstjóra, sem segir það ljóst að þær aðgerðir hafi ekki dugað til.

„Verður allra leiða leitað, svo komast megi fyrir rót vandans í eitt skipti fyrir öll,“ segir á vef Fjarðarbyggðar.

Vesturálman er elsti byggingarhluti Nesskóla, byggð árið 1930 og hýsir jarðhæðin Tónskóla Neskaupstaðar ásamt myndmenntarstofu Nesskóla. Sýnatökur afmarka meginvandann við jarðhæðina, en alls voru sjö sýni tekin að undangenginni rakagreiningu og mælingum með snertirakamæli. Af þessum sjö sýnum fannst mygla í þremur, tvö í húsnæði tónskólans og eitt við myndmenntarstofu. Þá greindust ummerki um myglu í tveimur sýnum og tvö voru myglulaus.

Sýnatökur fóru fram í síðasta mánuði og fékk bæjarráð Fjarðabyggðar frumniðurstöður afhentar á fundi sínum í gærmorgun. Ákveðið var í samráði við stjórnendur grunnskólans og tónskólans að loka jarðhæðinni frá og með deginum í dag, allt þar til endurbótum á húsnæðinu verður lokið.

Vegna lokunar jarðhæðarinnar fellur kennsla niður hjá tónskólanum tvær síðustu vikur skólaársins. Þá verður myndmenntarkennslu sinnt annars staðar í húsnæði Nesskóla.

mbl.is