Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur mikilvægt að stjórnvöld sýni nú hugrekki, losi gjaldeyrishöftin eins mikið og unnt er og láti reyna á raunverulegt markaðsvirði krónunnar. Annað myndi skjóta skökku við.
Í samtali við mbl.is fagnar Þorsteinn því að Alþingi hafi samþykkt aflandskrónufrumvarpið svonefnda og hafi nú lokið þeirri lagasetningu sem þurfti að ljúka í aðdraganda fyrirhugaðs útboðs á aflandskrónum, sem til stendur að halda í næsta mánuði. Útboðið sé lokahnykkurinn áður en hægt verður að losa höftin.
„Við hefðum viljað sjá þetta gerast mun fyrr. Okkur þótti verða of mikill dráttur á þessum áfanga en engu að síður er mjög ánægjulegt að sjá að mönnum er nú ekkert að vanbúnaði að ráðast í útboðið og þá í beinu framhaldi af því í myndarlega losun á höftunum.
Aðstæður í þjóðfélaginu eru eins og best verður á kosið til þess að ráðast í losunarferlið. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld sýni hugrekki í því, með svo sterkt gjaldeyrisinnstreymi eins og raunin er vegna góðrar stöðu útflutningsatvinnuveganna, að reyna að losa höftin eins mikið og unnt er og láta reyna á raunverulegt markaðsvirði krónunnar við þessar aðstæður,“ nefnir hann.
Það myndi skjóta skökku við að hafa víðtæk höft á gjaldeyrisútflæði á sama tíma og hagkerfið sé, ef eitthvað er, að glíma við vanda vegna gjaldeyrisinnflæðis og „óþægilega mikla styrkingu krónunnar“.
„Við erum meðal annars að sjá vaxtamunarviðskipti taka við sér á nýjan leik. Við þessar kringumstæður er full ástæða til að afnema allar þær hindranir sem eru á eðlilegu fjármagnsflæði milli landa.“
Aðspurður segir Þorsteinn það ekkert launungarmál „að við erum nokkuð uggandi yfir þessari miklu styrkingu sem hefur orðið á krónunni á undanförnu ári, samhliða þessu gríðarlega sterka innflæði. Það grefur að mörgu leyti undan samkeppnisstöðu okkar helstu útflutningsatvinnuvega. Svo má ekki gleyma því að ástæða þess að við erum í svo sterkri stöðu efnahagslega er einmitt þessi góði gangur í útflutningsgreinunum okkar, meira og minna öllum, og það er mikilvægt að verja þar af leiðandi samkeppnisstöðu þeirra fram á veginn svo það komi ekki eitthvert bakslag.
Þess vegna er afar brýnt að ganga hratt og örugglega til verks um losun haftanna.“
Hann segir gjarnan rætt um það í tengslum við áform stjórnvalda að lífeyrissjóðir muni áfram búa við umfangsmiklar takmarkanir á fjárfestingum sínum. „Við teljum ekki ástæðu til þess.“
Þvert á móti sé nauðsynlegt að leyfa lífeyrissjóðunum að auka erlendar fjárfestingar sínar, sér í lagi við núverandi kringumstæður. Það snerti heilbrigði lífeyriskerfisins til lengri tíma litið. Þeir verði að fá að sitja við sama borð og aðrir fjárfestar þegar höftin verða losuð.