Hverjar eru þessar aflandskrónur, hver á þær og hvaða áhrif mun útboðið á þeim hafa? Starfsmenn Seðlabankans hafa skynjað spurningarnar sem brenna á mörgum og tóku því saman spurninga- og svarblað með helstu álitaefnum um málið.
Bent er á að um 320 milljarðar af aflandskrónum bíði eftir útgöngu í snjóhengjunni svokölluðu. Þær eru líklegar til að leita úr landi við losun fjármagnshafta með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar og gjaldeyrisforða.
Megintilgangur nýsettra laga um aflandskrónur er að aðgreina þær tryggilega til þess að hægt verði að ráðast í haftalosun án þess að ógna stöðugleika.
Þetta útboð er ólíkt öðrum vegna þess að það er mun stærra. Á síðustu fimm árum hefur Seðlabankinn haldið alls 21 útboð og heildarviðskiptin í þeim nema 158 milljörðum króna. Líkt og áður segir eru hér 320 milljarðar í einu útboði.
Í svörum Seðlabankans segir að í gegnum viðskipti á aflandsmarkaði hafi átt sér stað nokkur samþjöppun á eignarhaldi aflandskrónueigna á síðustu árum.
Fjórir stærstu eigendurnir, alþjóðlegir verðbréfa- og vogunarsjóðir, eiga í blönduðum fjárfestingarsöfnum sínum tæplega helming þessara aflandskróna.
Þá segir að vænta megi þess að áhrif útboðsins á verðbólgu verði lítil að öllu öðru óbreyttu og hafi ekki neikvæð áhrif á kaupmátt ráðstöfunartekna og greiðslubyrði íslenskra heimila. Hættan á vítahring lækkandi gengis krónunnar og hækkandi verðlags sé því lítil.
Hér má lesa svörin í heild.