Yfirvöld í Indónesíu hafa hert refsingar gegn þeim sem dæmdir eru sekir um að nauðga barni og heimilar refsiramminn nú dauðarefsingu og vönun með lyfjameðferð. Ástæðan er mikil reiði í samfélaginu vegna nokkurra ofbeldisglæpa, m.a. hópnauðgunar þar sem fórnarlambið var 14 ára stúlka.
Fréttavefur BBC hefur eftir Joko Widodo, forseta Indónesíu, að með þessu móti eigi að „sigrast á hremmingum vegna ofbeldisfullra kynferðisglæpa gegn börnum.“
Refsiramminn vegna nauðgunar, hvort sem fórnarlambið var barn eða fullorðinn einstaklingur, var áður 14 ára fangelsisvist.
Þeir sem dæmdir verða fyrir barnaníð kunna, eftir reglubreytinguna, einnig að vera skyldaðir til að nota ökklaband að afplánun lokinni, þannig að hægt sé að fylgjast áfram með ferðum þeirra.
Hópnauðgun á hinni 14 ára gömlu Yuyun sem var á leiðinni heim úr skólanum og hrottalegt morð á 18 ára verksmiðjustarfsmanni nú fyrr í mánuðinum hafa vakið mikla reiði meðal landsmanna.
Skoðanakannanir og orðræðan á samfélagsmiðlum sýnir stuðning við hertar refsingar á borð við vönun og dauðarefsingu fyrir árásarmennina, sérstaklega þegar fórnarlömbin eru á barnsaldri.
Fjöldi aðgerðasinna í mannréttindamálum hefur hins vegar látið í ljós efasemdir í garð reglubreytingarinnar. Mariana Aminudi, frá indónesísku nefndinni um ofbeldi í garð kvenna, sagði á Twitter. „Vönunarlögin eru til vitnis um að ríkisstjórnin lítur ekki á kynferðisglæpi sem ofbeldisglæpi, heldur eingöngu að draga þurfi úr kynferðislöngun.“
Þá sagði Sandra Moniaga í mannréttindanefnd Indónesíu að ofbeldi yrði ekki stöðvað með ofbeldisfullum refsingum.
Nýju reglurnar voru látnar taka gildi samstundis með sérstakri forsetatilskipun, en vera kann að indónesíska þingið muni síðar synja þeim gildistöku.
„Einstakra viðbragða er þörf vegna einstakra glæpa,“ sagði forsetinn.