Þriðjungur Kóralrifsins mikla dauður eða deyjandi

Dauðir og deyjandi kóralar í miðju Kóralrifinu mikla undan ströndum …
Dauðir og deyjandi kóralar í miðju Kóralrifinu mikla undan ströndum Ástralíu. AFP

Að minnsta kosti 35% kór­ala í sum­um hlut­um Kór­alrifs­ins mikla und­an strönd­um Ástr­al­íu eru dauð eða deyj­andi vegna gríðarlegr­ar föln­un­ar af völd­um lofts­lags­breyt­inga, að sögn þarlendra vís­inda­manna. Föln­un kór­al­anna nú er tal­in sú versta sem sög­ur fara af.

Vís­inda­menn hafa rann­sakað rifið úr lofti og á sjó und­an­farna mánuði eft­ir að ljóst varð að meiri hátt­ar föln­un var far­in að eiga sér stað í mars vegna hækk­andi hita í haf­inu. Kór­al­ar eru afar viðkvæm­ir fyr­ir hita­stigs­breyt­ing­um. Í viðvar­andi hlý­ind­um drep­ast þör­ung­ar utan á þeim sem veld­ur því að kór­al­arn­ir fölna og deyja á end­an­um. 

Terry Hug­hes, for­stöðumaður kór­al­rann­sókna við James Cook-há­skóla í Ástr­al­íu, seg­ir að hnatt­ræn hlýn­un hafi valdið usla í rif­inu sem er á heims­minja­skrá Sam­einuðu þjóðanna. Í 84 rifj­um í norðan­verðu og fyr­ir miðju Kór­alrifs­ins mikla hafi í það minnsta 35% kór­al­anna verið dauðir eða deyj­andi þegar vís­inda­menn könnuðu ástandið.

Kór­al­arn­ir í suður­hluta rifs­ins eru sagðir í skárra ástandi þar sem hita­stigið sunn­ar í haf­inu hef­ur verið nær meðaltals­hita.

„Þetta er þriðja skiptið á átján árum sem Kór­alrifið mikla hef­ur orðið fyr­ir út­breiddri föln­un vegna hnatt­rænn­ar hlýn­un­ar og þessi at­b­urður núna er mun öfga­fyllri en þeir sem við höf­um mælt áður,“ seg­ir Hug­hes.

Þrýstu á Sam­einuðu þjóðirn­ar

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök hafa biðlað til ástr­alskra stjórn­valda um að gera meira til að bjarga kór­alrif­inu sem staf­ar einnig hætta af úr­gangi frá land­búnaði, iðnaðar­starf­semi og kross­fisk­um sem nær­ast á þör­ung­un­um. Auk hnatt­rænn­ar hlýn­un­ar hef­ur einn öfl­ug­asti El niño í manna minn­um leitt til óvenju­mik­illa hlý­inda í haf­inu við Ástr­al­íu.

Rík­is­stjórn Ástr­al­íu, sem hef­ur margoft verið sökuð um að draga lapp­irn­ar í lofts­lags­mál­um, seg­ir að aldrei hafi meira verið gert til að bjarga rif­inu sem þúsund­ir Ástr­ala reiða sig á sem lífsviður­væri með ein­um eða öðrum hætti.

Greg Hunt, um­hverf­is­ráðherra lands­ins, benti á að heims­minja­nefnd SÞ hafi sagt störf stjórn­valda for­dæmi á heimsvísu og gagn­rýndi að í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar hafi staðið til að lýsa rifið í hættu.

Ástr­alska rík­is­stjórn­in lagði hart að heims­minja­nefnd­inni að setja Kór­alrifið mikla ekki á lista yfir heims­minj­ar í hættu og fékk sínu fram­gengt. Í síðustu viku var upp­lýst að stjórn­in hefði einnig þrýst á SÞ að fjar­lægja all­ar vís­an­ir til Ástr­al­íu og ástands Kór­alrifs­ins mikla úr skýrslu um lofts­lags­breyt­ing­ar af ótta við nei­kvæð áhrif á ferðamennsku.

mbl.is