14,6% unglinga þolendur kynferðisofbeldis

Daglegar reykingar voru mun algengari meðal þeirra unglinga sem höfðu …
Daglegar reykingar voru mun algengari meðal þeirra unglinga sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu káfi en þær virtust aukast enn meira meðal stúlkna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

14,6% íslenskra unglinga hafa orðið fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Þetta kemur fram í rannsókn sem byggð er á gögnum íslenska hluta HBSC-rannsóknarinnar á heilsu og lífskjörum skólabarna.

„Kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart börnum og unglingum er ein alvarlegasta ógn við heilbrigði þeirra,“ segir í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Markmið rannsóknarinnar var að meta hversu algengt er að unglingar í 10. bekk á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi og hvort slík reynsla tengist áhættuhegðun og vanlíðan.  

Daglegar reykingar algengari hjá þeim sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi 

Alls tóku 3.618 íslenskir nemendur þátt í alþjóðlegri spurningalistarannsókn sem lögð var fyrir nemendur í 10. bekk í öllum skólum landsins að einum undanskildum. Í rannsókninni var reynsla nemenda metin með því að spyrja hvort þeir hefðu gegn sínum vilja verið: a) snertir með kynferðislegum hætti, b) verið látnir snerta annan einstakling með kynferðislegum hætti, c) verið reynt að hafa við þá samfarir eða munnmök eða d) einhverjum hefði tekist að hafa við þá samfarir eða munnmök.

14,6% (527) þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi.
14,6% (527) þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi. AFP

14,6% (527) þátttakenda höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi. Af þeim sögðust 4,5% (162) hafa orðið fyrir slíku einu sinni, en 10,1% (365) höfðu annaðhvort orðið oftar fyrir ákveðinni gerð áreitni eða ofbeldis eða því hafði verið beitt gegn þeim á margvíslegan hátt. Daglegar reykingar voru mun algengari meðal þeirra unglinga sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu káfi en þær virtust aukast enn meira meðal stúlkna. 

Kynferðislegt ofbeldi vanmetið í íslensku heilbrigðiskerfi 

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna skýr tengsl milli kynferðislegrar áreitni og ofbeldis annars vegar og neikvæðra þátta í lífi unglinganna hins vegar. Margfalt algengara er að þeir sem hafa orðið fyrir slíku hafi oft orðið drukknir, reyki tóbak og hafi prófað kannabis. Þeir eru einnig mun líklegri til þess að þjást af verkjum, eiga í svefnörðugleikum, vera pirraðir og taugaóstyrkir. Mun fleiri þeirra tengjast líka einelti, bæði sem þolendur og gerendur. Upplifun þeirra af skólastarfi er sömuleiðis mun neikvæðari.

„Í ljósi þess hversu alvarlegar afleiðingar kynferðislegt ofbeldi og áreitni gagnvart börnum getur haft á velferð barna og unglinga eru niðurstöðurnar vísbending um að þessi tegund af ofbeldi sé vanmetin sem vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld viðurkenni þennan vanda og finni leiðir bæði til að draga úr honum,“ segir í Læknablaðinu.

mbl.is