Dúxinn stefnir á skiptinám

Stefán Aspar Stefánsson, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum
Stefán Aspar Stefánsson, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég var búinn að vinna að þessu í ár. Þá fattaði ég að ég gæti þetta. Þetta var markmiðið,“ segir Stefán Aspar Stefánsson og þakkar foreldrum sínum fyrir þann stuðning sem þeir veittu honum. Stefán Aspar er dúx Menntaskólans á Egilsstöðum og útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,37, auk þess að hljóta verðlaun fyrir góðan árangur í félagsgreinum og tungumálum.

Stefán útskrifaðist af félagsfræðibraut en hann dvaldi um tíma í Argentínu sem skiptinemi, þrátt fyrir að hafa búið yfir takmarkaðri kunnáttu í spænsku. „Ég var búinn að taka tvo áfanga á Íslandi. Það var ekkert ætlast til þess að ég mundi ná öllu. Ég kom bara inn og var með takmarkaða kunnáttu í tungumálinu, kunni bara að segja „hæ“ og „bæ“ og svoleiðis.“

Í haust stefnir Stefán á nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri „Ég byrja á BA og sé til svo, ég stefni lengra. Akureyri er líka með góða möguleika upp á skiptinám, það er líka að heilla.“ Aðspurður hvort hann stefni aftur á spænskumælandi land til náms, segir hann það ekki í forgangi. „Helst Evrópu. Belgía eða eitthvað svoleiðis. Alþjóðlega lögfræðin er þar svo að kannski Belgía helst.“

Í sumar mun Stefán starfa í álveri Alcoa á Reyðarfirði. „Ég er í steypuskálanum á víravélinni. Í fyrra var ég í kerskálanum. Það er mikið betra að vera í steypuskálanum, enginn sóðaskapur eða neitt svoleiðis, engin öndunargríma eða neitt.“

mbl.is