Hrefnuvertíðin byrjar af krafti

Hrefnu landað til vinnslu í Hafnarfirði í vikunni.
Hrefnu landað til vinnslu í Hafnarfirði í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að veiða 11 hrefn­ur og seg­ir Gunn­ar Berg­mann Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Hrefnu­veiðimanna, að vertíðin hafi byrjað af óvenju mikl­um krafti í ár. Tveir bát­ar stunda hrefnu­veiðar í Faxa­flóa og er Hrafn­reyður KÓ kom­inn með sjö dýr og Rokk­ar­inn KE, áður Haf­steinn SK, með fjög­ur. Dýr­in eru unn­in í vinnslu Hrefnu­veiðimanna í Hafnar­f­irði.

Hrefnu­kjöt hef­ur selst upp á síðustu árum og tvö síðustu ár hafa hrefnu­veiðar gengið illa í Faxa­flóa. Til að anna eft­ir­spurn hafa Hrefnu­veiðimenn flutt inn alls 12-15 tonn af hrefnu­kjöti frá Nor­egi.

Gunn­ar seg­ir að hann hafi miðað við að veiða 50 hrefn­ur á vertíðinni, en með til­liti til þess hversu snemma kjöt var komið í versl­an­ir í ár og hve grilltíðin hafi verið góð til þessa, sé kannski nær að miðað við 60 dýr til að anna eft­ir­spurn inn­an­lands. Nú um sjó­mannadags­helg­ina verða Hrefnu­veiðimenn á ferðinni með grillið, meðal ann­ars á Grandag­arði.

Gunn­ar seg­ir að þetta sé tólfta árið sem hann sé viðloðandi hrefnu­veiðar og seg­ist ekki muna eft­ir að vertíðin hafi byrjað eins vel og í ár, samt sem áður hafi oft verið meira af hrefnu í Faxa­flóa.

„Á sama tíma í fyrra vor­um við bún­ir að veiða tvö dýr og vor­um stadd­ir í miðju dýra­lækna­verk­falli, sem hafði mik­il áhrif á vinnsl­una. Þegar verk­fall­inu lauk 10. júní tók­um við 17 dýr á 16 dög­um. Þá fyllt­ist Fló­inn af æti. Þetta gæti gerst aft­ur í ár, meira æti og meira líf og þá um leið fleiri hrefn­ur. Viku af júlí var hins veg­ar eins og kippt væri úr sam­bandi, lífið hvarf úr Fló­an­um og þá hvarf hrefn­an. “ seg­ir Gunn­ar.

mbl.is