Mikilvægt er að líta á úrbætur á meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins sem langhlaup en ekki spretthlaup. Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað í málaflokknum síðustu ár og kerfið er langt frá því að vera staðnað. Þetta segir María Rut Kristinsdóttir, formaður samráðshóps innanríkisráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins en hann skilaði af sér drögum að aðgerðaáætlun á miðvikudaginn til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra.
María segir ráðherra hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og lagt mikla áherslu á að verkefnið væri sett í forgang. „Þess vegna var sérstaklega gaman að fá að kynna þessi fyrstu drög og fá viðbrögð við þeim, en vinnan er samt sem áður fyrst að byrja núna, þó þessum áfanga sé lokið“
Til hliðsjónar var hópurinn með niðurstöður rannsóknar Hildar Fjólu Antonsdóttur Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála og tillögur að úrbótum frá árinu 2014 og niðurstöður rannsóknar Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð frá árinu 2013. Í rannsókninni frá árinu 2014 voru lagðar fram 33 úrbótatillögur og að sögn Maríu var það verkefni hópsins fyrst og fremst að skoða þær og eftir tilfellum móta nýjar tillögur til úrbóta og taka afstöðu til þeirra.
„Í þessu krefjandi verkefni er búin að vera alveg frábær samvinna og allt gengið alveg ofboðslega vel,“ segir María í samtali við mbl.is. „Við settum okkur það markmið að skila drögunum 1. júní sem við náðum að gera og glöddumst við yfir því.“
Hún segir það mikilvægt að sýna fram á vilja innan kerfisins til umbóta. „Mér finnst kerfið oft fá frekar ósanngjarna umfjöllun og ég hef kynnst því á eigin skinni að það er fullur vilji innan kerfisins að líta í eigin barm, skoða hvað má gera betur en líka er mikilvægt að hrósa því sem vel er gert.“
María bætir við að í rannsókninni frá árinu 2014 hafi verið nokkrar úrbótatillögur sem eigi ekki lengur við í dag. „Kerfið er langt frá því að vera staðnað, og það er margt búið að breytast á síðustu árum“ segir María og nefnir tilkomu embættis héraðssaksóknara og nýsamþykkt frumvarp um millidómsstig máli sínu til stuðnings.
„En það sem við gerðum er að við tókum þessar úrbótatillögur og bjuggum til okkar eigin flokkunarferli. Við tókum hverja aðgerð fyrir sig og hugsuðum hversu flókin hún væri í framkvæmd og hversu miklu máli hún skipti,“ segir María og bætir við að aðgerðirnar hafi verið flokkaðar eftir því sem hægt er að framkvæma strax og hvaða aðgerðir séu til lengri tíma.
Drögunum sem afhent voru ráðherra í gær var skipt í sex kafla. Einn snýr að rannsóknum, það er fyrstu viðbrögðum hjá lögreglu og neyðarmóttöku, sá næsti að ákæruvaldi, svo dómstólum, brotaþolum, sakborningum og sá síðasti snýr að forvörnum og fræðslu. Að sögn Maríu voru undir hverjum kafla annars vegar aðgerðir sem hægt var að framkvæma strax og síðan þær sem er hægt að framkvæma til lengri tíma.
María segir að nú vilji hún hitta þá hagsmunaaðila sem hafa mikla skoðun á þessum málum og kynna þeim drögin. „Þá fá þeir tækifæri til þess að benda á ef það er eitthvað sem okkur hefur láðst að hugsa út í. Ég er þó nokkuð sannfærð um að flest sjónarmið séu þarna undir, hvort sem það snýr að innviðum kerfisins eða gagnvart brotaþolum og sakborningum.“
Hún segir jafnframt mikilvægt að líta ekki á þetta verkefni sem tímabundið átak heldur langtíma verkefni. Samráðshópurinn heldur áfram að starfa saman og að sögn Maríu þarf núna að meta hvaða aðgerðir eru raunhæfar og hverjar ekki.
„Nú er búið að kortleggja stöðuna og við sjáum að margar aðgerðir snúa að innviðum kerfisins,“ segir María. „Til dæmis vorum við að skoða hvernig hægt væri að stytta málsmeðferðartímann en það snertir við öllum sem koma að þessu kerfi, fólkinu sem vinnur við það og þeim sem upplifa það, það er brotaþolum og sakborningum. Það eru nokkrir þættir sem eiga það samnefnt að fara í gegnum öll lögin á meðan aðrar aðgerðir eru sértækar við hvert og eitt.“
Hún segir vinnu starfshópsins hingað til tvíþætta, í fyrsta lagi skoða hvað hægt sé að gera til að styrkja kerfið og svo hvað sé hægt að gera til þess að auka traust og tiltrú fólks á kerfinu. „Þar að auki þurfum við að leita leiða til þess að auka réttarvernd brotaþola án þess að skerða réttarvernd sakborninga,“ segir María. „Það skiptir svo miklu máli að horfa á þetta með skynsemisaugum, hvað sé hægt að gera strax og hvað hver og ein undirstofnun geti tekið til sín annars vegar og svo hins vegar hvar ráðuneytið og ríkið þurfa að bregðast við.“
María segir tilefni til þess að hrósa meðlimum hópsins þar sem hver og einn fulltrúi átti auðvelt með að líta í eigin barm með hvað gera mætti betur í sinni stofnun og sömuleiðis komið ábendingum um hvað betur mætti fara hjá öðrum stofnunum. Þá segir hún núna kominn tíma til þess að nýta tækifærin sem liggja í því að fara í svona vinnu.
„Þetta er ekki spretthlaup heldur langhlaup og að mati samráðshópsins eru forvarnir og aukin fræðsla gríðarlega mikilvæg. Við þurfum að skoða hvað við getum gert til þess að upplifun þeirra sem kæra sé betri og huga að betri úrræðum fyrir sakborninga en stóra spurningin er hinsvegar hvernig við komum í veg fyrir það að brotin eigi sér stað, það gerist með auknu samtali um brotaflokkinn, forvörnum og fræðslu,“ segir María.
Hún segir án efa mikla vitundarvakningu hafa átt sér stað í málaflokknum síðustu ár. „Maður finnur að það er auðveldara að tala um kynferðisofbeldi en áður sem er gríðarlega mikilvægt en traust almennings á kerfinu verður að fylgja með. Ég veit að það hafa átt sér stað gríðarlega miklar úrbætur á öllum stigum réttarvörslukerfisins á síðustu árum þegar það kemur að meðferð kynferðisbrota. Þrátt fyrir það er listinn langt frá því að vera tæmdur og mörg krefjandi verkefni fyrir höndum," segir María og bætir við að innan réttarvörslukerfisins sé gott fólk að vinna sem gerir sitt besta í þeim skilyrðum sem því eru sett.
„Staðreyndin er einfaldlega sú að stjórnvöld þurfa stöðugt að leggja mat á réttarvörslukerfið með gagnrýnum hætti og opnum hug og leita leiða til úrbóta. Það er því von samráðshópsins að þær tillögur að aðgerðum sem lagðar voru fram á miðvikudaginn muni á endanum koma að gagni.“
María segist hlakka til að halda áfram þessari mikilvægu vinnu en að það verði jafnframt mjög ánægjulegt að sýna lokaafraksturinn í haust, fá viðbrögð og opna umræðu um tillögurnar. „Ég tel að þarna séu margar góðar og mikilvægar úrbótatillögur sem mikilvægt væri að ráðast í á næstu árum.“