Brock Turner, fyrrverandi nemi við Stanford-háskóla, sem var á dögunum dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn rænulausri konu á skólalóðinni, sendi ljósmynd af brjóstum hennar á vini sína á meðan hann braut á henni.
Í gögnum málsins kemur fram að Turner hafi sent ljósmyndina á hóp vina sinna í gegnum smáforritið GroupMe, en stuttu síðar hafi vinur hans svarað: „HVER Á ÞESSI BRJÓST“. Rannsakendur málsins gátu ekki opnað myndina, en henni hafði verið eytt út af spjallinu stuttu eftir atvikið.
Framburður sænsku stúdentanna Carl-Fredrik Arndt og Peter Jonsson, sem stóðu Turner að verki þar sem hann braut gegn konunni á bak við ruslagám, styðja við þetta en þeir segjast hafa séð hann taka mynd eða myndband af konunni rétt áður en þeir komu að honum.
Dómurinn hefur vakið mikla reiði víða um heim, en hámarksrefsing fyrir glæpinn er 14 ára fangelsisdómur en mun Turner líklega aðeins verja þremur mánuðum bak við lás og slá. Turner var fundinn sekur um þrjá ákæruliði, en hann hætti ekki að brjóta gegn konunni fyrr en Arndt og Jonsson, sem áttu leið hjá, stóðu hann að verki.
Þegar þeir nálguðust Turner stakk hann af, en Jonsson elti hann uppi og hélt honum föstum þar til lögreglan kom og handtók hann. Arndt beið hjá konunni á meðan, en mennirnir tveir voru lykilvitni í málinu.
Rúmlega milljón manns hafa skrifað undir áskorun þar sem kallað er eftir að dómaranum í málinu verði vikið frá störfum, en dómurinn þykir af mörgum ekki vera í samræmi við brotið. Dómarinn, Aaron Persky, hefur verið harðlega gagnrýndur, en saksóknarar fóru fram á sex ára dóm.
Hið 23 ára fórnarlamb Turner, sem hefur ekki komið fram undir nafni opinberlega, tjáði sig í réttarsalnum í síðustu viku og fór með samantekt, 12 blaðsíðna yfirlýsingu sem hún hafði lagt fyrir dómarann. Yfirlýsingin var í kjölfarið birt á BuzzFeed, þar sem hún hefur verið skoðuð 16 milljón sinnum.
Í yfirlýsingunni rifjaði hún upp kvöldið sem Turner braut gegn henni og hvernig hún hafi vaknað á sjúkrahúsi daginn eftir án þess að muna hvað hafi gerst. „Ég var skotmark markvissra spurninga sem beindust að einkalífi mínu, ástarlífi mínu, fjölskyldulífi mínu; vitlausra spurninga sem miðuðu að því að safna smávægilegum upplýsingum til að reyna að grafa upp afsökun fyrir þennan mann, sem hafði afklætt mig til hálfs áður en hann hafði fyrir því að spyrja mig að nafni,“ sagði konan meðal annars í yfirlýsingunni.
Frétt mbl.is: Blaut tuska í andlit þolenda