Dóttirin kvíðir helgunum

mbl.is/GettyImages

Valdimar Svavarsson, ráðgjafi í Lausninni, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá áhyggjufullri móður: 

Sæll Valdimar,

barnið mitt þolir ekki að horfa á okkur deila einni rauðvínsflösku á góðum degi. Ég var gift áður, manni sem var alkóhólisti. Ég upplifði sjálf hræðslu þegar hann drakk. Nú er ég með öðrum manni sem drekkur ekki svona illa eins og minn fyrrverandi. Við deilum stundum rauðvínsflösku með matnum um helgar og eigum það til að fá okkur hvítvínsglas ef sólin skín. Allt i rólegheitum og gleði. Eftir matinn fáum við okkur venjulega ekki meira og setjumst bara við sjónvarpið. Barnið mitt, 11 ára gamalt, þolir þetta mjög illa. Hún kvartar í hvert skipti og líður hreinlega mjög illa þó svo það gerist aldrei neitt. Við rífumst aldrei og erum aldrei með hávær partí og mjög sjaldan gesti. Hún er orðin ein taugahrúga og kvíðir fyrir helgunum. Við reynum að hafa drykkju i lágmarki vegna þessa en samt finnst okkur óþarfi að hætta alveg því við erum svo róleg í þessu og viljum líka sýna henni að fólk getur notað áfengi á góðan hátt. Hvað finnst þér að við eigum að gera.

Kær kveðja, S

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Áfengisneysla er víða vandamál og gjarnan fylgifiskur erfiðleika á heimilum. Um það bil 20% karlmanna og 11% kvenna leita sér aðstoðar vegna áfengisneyslu á Íslandi. Aðstandendur þeirra sem misnota áfengi ganga í gegnum erfiða reynslu, ekki síður en alkahólistinn sjálfur. Börn sem upplifa uppalendur sína á þann hátt að þeir misnoti áfengi verða fyrir áfalli og geta eðlilega upplifað mikinn ótta og kvíða í tengslum við drykkju í framhaldi af því. Það að horfa upp á foreldri og/eða uppalendur breytast undir áhrifum áfengis kallar fram þessi viðbrögð hjá börnum og eðlilegt að þau hafi miklar áhyggjur af því að þurfa að sjá fólkið sem þau eru háð og þurfa að treysta á verða gjörbreytt undir áhrifum. Þegar fólk misnotar áfengi verða börnin oft vitni að því að við beitum ofbeldi, rífumst, öskrum, eigum erfitt með jafnvægi, verðum þvoglukennd, göngum yfir tilfinningaleg eða líkamleg mörk gagnvart börnunum okkar eða öðrum í kringum okkur og svo mætti lengi telja. Þetta eru allt upplifanir sem flokkast sem áföll fyrir börn.

Börn eru líka gjörn á að sjá hlutinn sjálfan sem vandamálið í staðinn fyrir að tengja vandann við einstaklinginn sem um ræðir. Það er því eðlilegt að dóttur þinni líki almennt illa við áfengisneyslu eftir að hafa upplifað hana á neikvæðan hátt, í stað þess að hún tengi það eingöngu við þann aðila sem misnotaði áfengið.

Það er mikilvægt að dóttir þín fái viðurkenningu á tilfinningum sínum, það er að segja að hún fái að tjá þær og að hún finni að þær eigi rétt á sér. Það þarf að ræða við hana um áfengi og þann vanda sem það getur skapað og hver munurinn er á áfengisneyslu í hófi annars vegar og þegar um stjórnleysi er að ræða hins vegar. Ég set spurningarmerki við það að hún kvíði alltaf helgunum og velti því fyrir mér hvort það sé regla á ykkar heimili að verið sé að neyta áfengis að minnsta kosti hverja helgi. Þó svo að maður hvetji ekki til þess að fólk neiti sér um áfengi ef þess er neytt í hófi, þá er mikilvægt að hafa þarfir dóttur þinnar í fyrirrúmi og sjálfsagt að fækka þeim skiptum sem áfengis er neytt, ef það veldur henni stöðugum kvíða.

Eins tel ég mikilvægt að þegar þið ræðið saman um þessi mál að hún fái bæði viðurkenningu um að það sé eðlilegt að henni hafi liðið illa í þeim aðstæðum sem sköpuðust í kringum aðilann sem misnotaði áfengið og sjálfsagt að biðjast afsökunar á því að hafa boðið henni upp á slíkar aðstæður.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is