Hitinn í nýju Laugardalshöllinni var nánast óbærilegur þegar síðasti ómurinn af gítarsurginu í „Bodysnatchers“ dó út á tónleikum Radiohead á föstudaginn. Líklega hefur aldrei verið saman kominn annar eins fjöldi af fólki í byggingunni og ólíklegt verður að teljast það gerist aftur. Eitthvað var um að aðdáendur hreinlega misstu af tónleikunum eða þyrftu að horfa á sveitina úr töluverðri fjarlægð og á stað þar sem hljóðið var ekki nægilega gott.
Fullyrðingar skipuleggjenda fyrir hátíðina um, að allir sem vildu sjá sveitina þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur ef þeir mættu tímanlega, lykta nú af Wayne’s World spekinni: „If you book them, they will come“. Að því sögðu eiga aðstandendur hátíðarinnar augljóslega mikið hrós skilið fyrir að ná að lokka sveitina til landsins sem hefur margsinnis verið reynt í gegnum tíðina.
Af ummælum fólks á samskiptamiðlum að dæma mun verða talað um þessa tónleika næstu áratugina enda er Radiohead í hópi allra bestu hljómsveita tónlistarsögunnar. Ef hægt er að segja að Bítlarnir hafi fundið upp formið þar sem hljómsveit semur og tekur upp lög og vinnur með þá möguleika sem það hefur upp á að bjóða, fullyrði ég að Radiohead sé sú sveit sem hefur sýnt hvað mest hvernig hægt er að vinna með það og útvíkkað það enn frekar.
Í ofanálag er sveitin ein albesta tónleikasveit sem hægt er að finna og því fengu áhorfendur á Secret Solstice að kynnast á föstudaginn. Fyrstu fimm lögin voru af nýjustu plötu sveitarinnar: A Moon Shaped Pool, hljóðið var ekki alveg nægilega gott þá og það setti svip sinn á byrjunina og þau nutu sín illa þar sem ég stóð fyrir miðjum sal. Mikil fagnaðarlæti brutust svo út þegar gítarlínan í „My Iron Lung“ af The Bends tók að hljóma og ljóst var að fólkið sem var í salnum var staðráðið í að gera þetta að eftirminnilegri stund. Hljóðið batnaði líka eftir því sem leið á og var orðið mjög gott þegar „Reckoner“ hristist í gang.
Thom Yorke, sem hoppaði og skoppaði um sviðið í miklum ham, lýsti því yfir að liðsmenn Radiohead væru í skýjunum yfir því að vera komnir til landsins. Alls spilaði sveitin 25 lög, mörg af vinælustu lögum sveitarinnar fengu að hljóma, einhverjum fannst lagalistinn jafnvel full augljós, sem gæti tengst því að sveitin var að spila hér á landi í fyrsta skipti.
Gert hafði verið ráð fyrir því að spila „How to disappear completely“ af Kid A en í stað þess flutti sveitin klassíkina „Karma Police“ við mikinn fögnuð áhorfenda og söngur þeirra í lok lagsins er eftirminnilegasta tónleikaminning sem undirritaður hefur orðið vitni að. Eftir það renndu þeir beint í „Creep“ og það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvernig viðtökurnar voru við laginu sem hefur verið spilað 110 milljón sinnum á Spotify og 148 milljón sinnum á Youtube eins og staðan er í dag. Fögnuðurinn var lygilegur og þeir voru margir sem felldu tár á ólíkum stundum á tónleikunum ef eitthvað er að marka yfirlýsingar á samskiptamiðlunum.
Ég hef það á tilfinningunni að þeir félagir hafi heimsótt okkur á akkúrat réttum tímapunkt því það er skemmtileg stemmning yfir sveitinni þessa dagana. Það sást vel á því hversu vel liðsmenn hennar skemmtu sér á tónleikunum, tengdu vel við áhorfendur og lögðu sig alla fram við að gera kvöldið sérstakt.
Frammistaðan var frábær enda eru þetta menn sem hafa náð einstökum tökum á því sem þeir gera og það er skemmtileg viðbót að vera með auka trommara þegar við á. Einhverjir hafa hnýtt í nokkrar falskar nótur í söngnum en það væri lítið rokk í öðru að mínu viti. Tempóin á lögunum voru gjarnan afslöppuð og hæfðu vel mönnum sem nálgast sextugsaldurinn óðfluga, t.a.m. í „Paranoid Android“. Í öðrum lögum á borð við „Bodysnatchers“ og „2+2=5“ sýndu þeir hversu frábær hrá rokksveit þeir geta líka verið. Ekki hægt að kvarta undan gítarleysi þar.
Þeir eru alltaf einhverjir sem furða sig á vinsældum sveitarinnar eða skilja ekki af hverju sveitin skipti um gír um aldamótin og fór að gera tónlist sem er meira krefjandi og ekki jafn-vel til þess fallin að halda uppi hópsöngnum á Glastonbury. Nákvæmlega þar er að finna stóran part af því sem er svo heillandi við Radiohead, það er ekki hægt að segja neitt til um hvað kemur næst og einhvern veginn langar mann alltaf í meira. Hver hefði ekki verið til í að mæta á aftur á laugardeginum í Höllina og fá þá að heyra „Lotus Flower“, „Street Spirit“ (fade out)“, „Exit Music (for a film)“, „The Bends“, „Pyramid Song“ og „Where I End And You Begin“?