Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að stjórn hans ætli ekki að láta draga sig inn í vígbúnaðarkapphlaup NATO. Hann sakar NATO, með Bandaríkjamenn í forystu, um að skapa hernaðarlegt ójafnvægi í Evrópu.
Pútín sagði hins vegar að Rússland kynni að bregðast við með „fullnægjandi hætti“ og „við munum gera það.“ Vísaði hann þar til aukins styrks herafla NATO í Austur-Evrópu, m.a. í Póllandi og Eystrasaltslöndunum. Hann segir að slíkt grafi undan hernaðarjafnvægi sem hafi verið byggt upp í áratugi.
„Við ætlum okkur ekki að taka þátt í þessu hernaðarbrjálæði en það lítur út fyrir að þeir séu að ýta okkur út í það, að hvetja til kostnaðarsams og tilgangslauss vígbúnaðarkapphlaups,“ sagði Pútín á fundi með rússneskum embættismönnum í Moskvu í dag. „Þetta mun ekki gerast. En við munum heldur ekki vera veikburða. Við munum alltaf geta varist.“
Grundvöllur varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna var treystur í gær með yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Er yfirlýsingin tilkomin vegna breytingar á ástandi öryggismála í Evrópu og á Norður-Atlantshafi á síðustu árum.
Frétt mbl.is: Viðvera hersins fest í form
Samskipti Rússa og vesturveldanna hafa ekki verið jafn slæm síðan í kalda stríðinu. Upphafið má rekja til átakanna á Krímskaga og til meints stuðnings Rússa við uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu.
Nokkur aðildarríki NATO, m.a. Eistland, Lettland, Litháen og Pólland, óttast að Rússar séu að gera sig fyrirferðarmeiri á svæðinu. NATO hefur því ákveðið að auka við herafla sinn í þessum löndum. NATO tilkynnti fyrr í þessum mánuði að fjórar liðssveitir yrðu sendar til Eystrasaltslandanna og Póllands.
Vegna viðskiptabanns sem vesturríkin hafa sett á Rússa vegna stríðsins í Úkraínu, gengur þjóðin nú í gegnum mestu efnahagslægð sem um getur frá því að Pútín tók við völdum.