Nokkur hundruð manns komu saman í Brixton, í suðurhluta Lundúna, í dag til þess að mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum. Sambærilegar mótmælagöngur voru haldnar í vikunni víða um Bandaríkin, m.a. í Dallas þar sem mótmælin enduðu með ósköpum þegar fimm lögregluþjónar voru skotnir til bana.
Black Lives Matter-hreyfingin stóð fyrir mótmælunum og gengu mótmælendur að lögreglustöð í Lundúnum og stöðvuðu á leiðinni rútur og umferð að því er AFP-fréttaveitan greinir frá.
Á skiltum mótmælenda mátti lesa skilaboð á borð við: „Hættið að myrða okkur“ og „Þögn hvítra kostar mannslíf“. Lögreglan í Lundúnum neitaði að tjá sig um mótmælin eða hversu margir lögregluþjónar hefðu verið kallaðir út vegna þeirra.