Var að skipuleggja stærri árás

Lögregluþjónar í Dallas.
Lögregluþjónar í Dallas. AFP

Árás­armaður­inn sem skaut fimm lög­reglu­menn til bana í Dallas á fimmtudagskvöld er talinn hafa verið að skipuleggja mun stærri árás. Þetta sagði David Brown, lögreglustjóri Dallas, í samtali við CNN-fréttastofuna í dag.

„Við erum viss um að hann hafði önnur plön,“ sagði Brown, en á heimili mannsins, hins 25 ára gamla Micah Johnson, fannst sprengiefni, skotheld vesti, rifflar, skotfæri og dagbækur um bardagakænsku. Að sögn Brown hefði sprengja af þeirri stærðargráðu sem Johnson virtist vera að smíða haft gríðarleg áhrif yfir alla borgina.

Johnson var skotinn til bana í átök­um við lög­reglu, en hann sagðist vera reiður vegna drápa lög­reglu­manna á svörtu fólki og að hann vildi drepa hvíta lög­reglu­menn. Dagana fyrir árásina voru tveir þeldökkir menn skotnir til bana af lögregluþjónum og sagði Brown að Johnson hafi reiðst við það og ákveðið að flýta plönum sínum um árás.

Það var svo á mótmælum gegn lögregluofbeldi sem Johnson lét til skarar skríða og hóf skothríð. Eftir skothríðina reyndi lögregla að semja við hann í um tvær klukkustundir. „Hann laug bara að okkur, lék leiki, hló að okkur, söng og spurði hversu marga hann hefði myrt og að hann vildi myrða fleiri,“ sagði Brown. Þá bætti hann við að Johnson hafi aðeins viljað ræða við þeldökka lögreglumenn.  

Johnson þjónaði í hern­um frá 2009 til 2015 og var send­ur til Af­gan­ist­an árið 2013. Hann sneri heim úr hernum í fyrra eftir að kona í sömu herdeild sakaði hann um kynferðislega áreitni.

Eft­ir að hann kom heim virðist hann hafa hallað sér að ýms­um hóp­um sem berj­ast fyr­ir rétt­ind­um blökku­manna, þar á meðal Nýju svörtu par­dus­un­um, ef marka má Face­book-notk­un hans. Þau sam­tök hafa verið kölluð stærstu skipu­lögðu her­skáu sam­tök blökku­manna sem standa fyr­ir gyðinga­hat­ur og kynþátta­hyggju.

mbl.is