„Verður þessi ljósmynd táknmynd mótmælanna þessa viku?“ spyr fréttamaður CNN um ljósmynd af friðsömum mótmælum konu gegn lögreglu í Baton Rouge í Louisiana í Bandaríkjunum, sem farið hefur eins og eldur um samfélagsmiðla undanfarna daga.
Ljósmyndarinn Jonathan Bachman tók myndina fyrir Reuters-fréttastofuna, en hún sýnir tvo lögreglumenn í óeirðabúnaði, með hóp annarra lögreglumanna í bakgrunninum, nálgast blökkukonu sem stendur ein á miðri götu í Baton Rouge.
Á samfélagsmiðlum er þegar rætt um myndina sem táknræna. Einn þeirra sem deilt hefur myndinni á Facebook er Shaun King, sem er með 560.000 fylgjendur, en hann fjallar um dómsmál fyrir dagblaðið New York Daily News.
BBC segir að í athugasemdum undir færslu hans, sé myndin sögð „þjóðsagnakennd“ og að hún muni „eftirleiðis birtast í sögu- og listasögubókum.“
Þá hefur bresk-indverski rithöfundurinn Hari Kunzru lofað stillinguna sem konan sýni undir ágangi lögreglunnar.
Mikið hefur verið um mótmæli nú um helgina í kjölfar þess að tveir blökkumenn, Philando Castile og Alton Sterling, féllu fyrir hendi lögreglumanna með sólarhrings millibili í síðustu viku. Þó að hvatt hafi verið til stillingar hafa a.m.k. 312 manns verið handteknir í mótmælum sem haldin hafa verið í New York, Chicago sem og í St. Paul og Baton Rouge þar sem Castile og Sterling voru drepnir. Þá féllu fimm lögreglumenn í skotárás á mótmælagöngu í Dallas í Texas.
Reuters segir myndina hafa verið tekna á laugardag, en að ekki sé vitað hver konan er, eða hvort hún hafi verið handtekin og hafa bæði BBC og CNN biðlað til almennings um upplýsingar um konuna.
Táknmál myndarinnar, þar sem ein manneskja sýnir mótstöðu gegn þungvopnuðum andstæðingi, minnir á sögufrægar ljósmyndir á borð við mynd Marc Riboud af mótmælanda í Víetnamstríðinu sem heldur uppi einu blómi framan við vopnaða lögreglu, eða mótmælandann sem stóð framan við skriðdrekana á torgi hins himneska friðar í Peking.
Myndin kallar einnig fram í hugann nýlega mynd af aðgerðasinnanum Mariu-Teresu „Tess“ Asplund sem stóð ein með reistan hnefa framan við mótmælagöngu hundruða nýnasista í Svíþjóð 1. maí sl.