Aðeins 10 mánuðir eru þar til Frakkar kjósa sér forseta. Ekki er útlit fyrir að sitjandi forseti, Francois Hollande, nái endurkjöri, kjósi hann yfirhöfuð að láta á það reyna. Hið pólitíska svið er því galopið eins og er og sá sem veit það manna best er fyrrum lærisveinn Hollandes, Emmanuel Macron.
Pólitíski ferill Emmanuels Macrons er afar sérstakur. Hann gegnir nú embætti efnahagsráðherra í Frakklandi þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið skráður í neinn stjórnmálaflokk. Hann segist ekki skilgreina sig til hægri né vinstri en stjórnmálaskýrendur hafa kallað hann hægrimann í vinstri dulargervi eins og þessi skopmynd gefur til kynna.
Puisque l'actu bégaie avec #Macron , je rediffuse ce dessin. #EnMarche ! pic.twitter.com/kJx6t1NGru
— Loïc Sécheresse (@loicsecheresse) July 12, 2016
Hann hefur þorað að gagnrýna ýmsar stefnur núverandi stjórnvalda, þar á meðal hina stuttu vinnuviku Frakka og hann hefur talað fyrir ýmsum efnahagsumbótum sem kenndar eru við hægristefnu.
Macron þykir einstakur stjórnmálamaður að mörgu leyti, ekki síst í einkalífinu. Eiginkona hans er Brigitte Trogneux. Hún er fyrrum kennarinn hans sem hann kynntist í menntaskóla. Macron sjálfur er 38 ára gamall, Trogneux er 63 ára. Sagan segir að foreldrar Macron hafi verið lítt hrifnir af sambandi hans við kennara sinn í menntaskóla og hafi því ákveðið að senda hann í annan skóla. Allt kom þó fyrir ekki og þau giftust árið 2007. Trogneux á sjálf þrjú börn úr fyrra hjónabandi og sjö barnabörn. Barnabörn sem Macron kallar sín eigin.
Margir spá því að Macron geti orðið næsti forseti Frakklands. Hann leiðir nú stjórnmálahreyfingu sem ber nafnið En Marche og þýðir einfaldlega Áfram (eða Áfram gakk jafnvel). Hreyfingin er með 50 þúsund félaga og vill líkt og Macron hvorki skilgreina sig til hægri né vinstri. Í gær hélt hann sína fyrstu opinberu samkomu á vegum En Marche-hreyfingarinnar í París.
Á undanförnum mánuðum hafa um 16 þúsund sjálfboðaliðar hreyfingarinnar bankað á dyr í alls 50 bæjum og borgum og rætt við um 100 þúsund manns. Þetta er gert til þess að fá að heyra frá almenningi hvað megi betur fara í landinu. Niðurstöðurnar eru svo samviskusamlega skráðar niður og verða notaðar til að móta stefnu.
Skoðanakannanir gefa Macron ákveðið tilefni til bjartsýni, ákveði hann að gefa kost á sér í forsetaembættið. Í nýlegri könnun sögðust 30% aðspurðra telja að hann gæti orðið góður forseti og 55% aðspurðra töldu hann líklegan til að boða nýjar hugmyndir. Hann er eins og stendur mun vinsælli en sitjandi forseti sem hefur átt í vök að verjast á síðastliðnum mánuðum og árum. Macron er aftur á móti lærisveinn Hollandes og lítur á forsetann sem mentor sinn. Hann gaf það út að hann muni ekki sækjast eftir kjöri ef Hollande sækist eftir endurkjöri en nú nýlega virðist sem hann hafi dregið í land með þá fullyrðingu.
Að sama skapi er ljóst að Hollande ber mikla virðingu fyrir lærisveini sínum. Þegar Macron stofnaði En Marche! gagnrýndu margir lykilmenn í Sósíalistaflokknum það harðlega og töldu að ráðherra í þeirra ríkisstjórn ætti ekki að stofna eigið stjórnmálaafl. Hollande hins vegar var mun skilningsríkari. „Ráðherra sem tekur þátt í virkri umræðu við kjósendur, það kallast einfaldlega stjórnmál,“ sagði Hollande og óskaði stjórnmálaafli Macrons góðs gengis.
Upphaflega var Macron ráðinn sem efnahagsráðgjafi Hollandes áður en hann var gerður að efnahagsráðherra fyrir tveimur árum. Hann fór strax að gagnrýna 35 stunda vinnuviku Frakka og stærð og óhagkvæmni stjórnsýslunnar í landinu. Vakti það gremju á meðal stjórnmálamanna á vinstri væng stjórnmálanna. Hann hefur einnig gagnrýnt sósíalista fyrir hina síauknu misskiptingu í samfélaginu. Hann hefur frá því að hann tók við embættinu komið í framkvæmd umbótum í viðskiptalífinu í Frakklandi með lagabreytingum sem örva eiga hagkerfið. Atvinnuleysið í landinu er þó enn þá mikið, eða um 10%.
Sjá frétt mbl.is: Starfabani og efnahagsleg bremsa
Annað sem Macron gagnrýndi og að lokum fjarlægði var 75% hátekjuskatturinn sem ríkisstjórn Hollandes innleiddi. Skatturinn var eitt kosningaloforða Hollandes en Macron var minna hrifinn af skattinum. Hann kallaði Frakkland „Kúbu án sólar“ vegna skattsins.
Sjá frétt mbl.is: 75% tekjuskattur lagður af
Samkvæmt vefritinu Politico er Macron sagður hafa áhyggjur af Corbyn-áhrifunum á Sósíalistaflokkinn þar sem blásið sé lífi í gamlar útdauðar hugmyndir. Að sama skapi er hann sagður hafa áhyggjur af því að Repúblikanaflokkurinn undir stjórn Nicolas Sarkozys sé að stefna í átt að þjóðernisflokknum Front National. Þannig býst hann við því að miðjan í frönskum stjórnmálum í Frakklandi sé að opnast upp á gátt og þar gæti En Marche! leikið stórt hlutverk. Þrátt fyrir að hann vilji ekki skilgreina sig til hægri eða vinstri notar hann orðið „róttækar“ um aðgerðirnar sem hann boðar og telur að séu nauðsynlegar fyrir franskt samfélag, og þá sérstaklega efnahagslegu aðgerðirnar.
Talsmaður efnahagsráðuneytis Macrons, Ismael Emilien, reynir í viðtali við Politico að útskýra hugmyndafræðilega stöðu Macrons í stjórnmálum. „Fyrir Macron þýðir það að hann starfi með vinstristjórn það að hann trúi á valdatilfærslu í stjórnmálum,“ segir Emelien.
Stjórnmálaskýrendur í Frakklandi telja að einn helsti vandi hans gæti orðið að hann nýtur ekki stuðnings neinna hinna stóru flokka í landinu. Fari svo að Sósíalistaflokkurinn, Front National, og Repúblikanaflokkurinn bjóði fram sína frambjóðendur í forsetakjörinu gæti orðið erfitt fyrir Macron að komast í gegnum fyrstu umferð kosninganna.
Sjá umfjallanir Time og The Guardian.