Hljóp og leit ekki um öxl

Vörubíllinn ók á fleygiferð inn í mannfjöldann.
Vörubíllinn ók á fleygiferð inn í mannfjöldann.

„Henni tókst að sleppa og finna skjól í áhorfendastúku,“ segir móðir stúlku sem var á vettvangi er vörubíll ók á um 60-70 km hraða á hóp fólks sem var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka í Nice. 

„Hún heyrði fólk öskra og tók til fótanna og hljóp heim og leit ekki um öxl,“ segir Loupzenoui Lautur, í samtali við Telegraph um reynslu dóttur sinnar.

Sjónarvottar segja að vörubílstjórinn hafi keyrt á fullri ferð og nokkuð langa vegalengd inn í mannfjöldann. Þannig hafi honum tekist að fella sem flesta. Nú er talið að í það minnsta 73 hafi látist. Hundrað í það minnsta eru slasaðir.

Vörubílstjórinn er svo sagður hafa farið út úr bíl sínum og hafið skothríð á fólkið. Það þykir renna stoðum undir þá kenningu að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Lögreglan skaut svo manninn til bana. Talið er mögulegt að fleiri en einn maður hafi verið í bílnum.

Atvikið átti sér stað við sjávarsíðuna, Promenade des Anglais, sem er vinsæll samkomustaður heimamanna og ferðamanna. 

„Vettvangur hryllings,“ segir Eric Ciotti, forseti héraðsins. Hann er nú staddur á vettvangi. 

mbl.is